9.4.2011

Laugardagur 09. 04. 11.

Þegar þetta er skrifað um miðnætti er ljóst að nei-ið hefur sigrað í Icesave-atkvæðagreiðslunni. Ég fagna þeim sigri. Hann fellur vel að málflutningi mínum. Ég tel málstað Íslands góðan og sjálfsagt sé að láta á hann reyna hjá ESA og EFTA-dómstólnum. Ég treysti ríkisstjórninni hins vegar ekki fyrir málinu og tel viðbrögð Jóhönnu og Steingríms J. við úrslitunum í sjónvarpssal enn til marks um ósvífni þeirra.

Spunaliðar Samfylkingarinnar á Eyjunni hafa gert því skóna að Ögmundur Jónasson og Jón Bjarnason hafi sagt nei í atkvæðagreiðslunni og þess vegna beri þeim að víkja úr ríkisstjórninni. Ögmundur skrifaði hollustuyfirlýsingu við Steingrím J. á vefsíðu sína til að verjast spunanum.  Einkennilegt er að leifar vinstri-grænna sem enn standa að ríkisstjórninni skuli hvað eftir annað leyfa Samfylkingunni að vaða svona yfir sig á skítugum skónum. Skýringin er einföld: Steingrímur J. er tilbúinn að láta allt yfir sig ganga haldi hann í ráðherravöldin; nú hefur hann tapað tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum og situr samt. Samfylkingin veit þetta og gengur einfaldlega á lagið. Samfylkingin mun hins vegar halda áfram að tapa fylgi á meðan Jóhanna skipar leiðtogasæti hennar. Aumari getur forsætisráðherra ekki orðið.

Bjarni Benediktsson telur að þingrof og kosningar séu eina leiðin í stöðunni. Ég er sammála honum um það. Forysta Sjálfstæðisflokksins þarf hins vegar að stilla sig inn á bylgjulengd flokksmanna. Vonandi tekst henni það hratt og vel.

Framsóknarflokkurinn samþykkti nýja stefnu í ESB-málum á flokksþingi sínu í dag, þegar hann ályktaði að það væri hag Íslands fyrir bestu að standa utan Evrópusambandsins. Þar með er horfin skilyrðastefnan óskiljanlega sem samþykkt var á flokksþinginu snemma árs 2009 þegar Sigmundur Davíð hlaut kosningu sem formaður. Með því að taka af skarið á þennan hátt hefur ESB-sjónarmiðum sem Halldór Ásgrímsson og Valgerður Sverrisdóttir leiddu til öndvegis í flokknum fyrir rúmum áratug og Jón Sigurðsson fylgdi í formennsku sinni verið vikið til hliðar. Samfylkingin er nú einangruð í stuðningi sínum við ESB-aðild. Valdaþrá Steingríms J. Sigfússonar gerir henni kleift að fylgja stefnu sinni fram með stuðningi meirihluta þingmanna.