13.4.2011

Miðvikudagur 13. 04. 11.

Ég hef ekki fylgst með þingumræðum fyrr en í dag að ég hafði annað augað á umræðum um vantrauststillögu Sjálfstæðisflokksins á ríkisstjórnina. Í tilefni af afgreiðslu hennar skrifaði ég pistil sem má lesa hér. Þar færi ég rök að því að sjálfstæðismenn á þingi hafi komist úr herkví með stuðningi manna úr öðrum flokkum við tillögu þeirra.

Steingrímur J. Sigfússon getur ekki lengur látið eins og hann leggi þann skerf af mörkum til stjórnarsamstarfsins að hann sé trúverðugur samstarfsmaður Samfylkingarinnar. Hroki Steingríms J. gagnvart Ásmundi Einari Daðasyni í sjónvarpsviðtali að lokinni atkvæðagreiðslunni um vantraustið er dæmalaus. Þar skammaði hann þingmanninn fyrir að fylgja sannfæringu sinni í ESB-málinu með því að styðja ekki ríkisstjórnina og sagði hann ósannindamann. Skyldi Ásmundur Einar nú taka skrefið yfir til Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur og yfirgefa Steingrím J. og félaga?

Árni Þór Sigurðsson sagði af sér formennsku í þingflokki VG í dag að milda Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og tryggja stuðning hennar við ríkisstjórnina. Skyldi hann segja af sér formennsku í utanríkismálanefnd alþingis og hætta stuðningi við ESB-stefnu Samfylkingarinnar til að bjarga VG frá upplausn?