12.4.2011

Þriðjudagur 12. 04. 11.

Viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur við vantrauststillögu Bjarna Benediktssonar og annarra sjálfstæðismanna á þingi voru eins og við var að búast: hallærisleg. Líklega átti ræða Jóhönnu að vera fyndin en henni tókst ekki að leyna ergelsi sínu.

Það verður sorglegt að verða vitni að því þegar þingmenn Samfylkingarinnar taka höndum saman til að styðja Jóhönnu áfram sem forsætisráðherra. Það er undir þingflokki Samfylkingarinnar komið en ekki stjórnarandstöðunni hve lengi þessi ömurlega ríkisstjórn situr. Með því að fella vantrauststillögu sjálfstæðismanna sanna þingmenn Samfylkingarinnar það eitt, að þeir treysta sér ekki til að leita eftir nýju umboði, þótt allt sé komið í óefni í stjórnarsamstarfinu.

Nú hefur fjármálaráðherra Hollands tekið af skarið um að Íslendingar komast ekki inn í ESB nema að greiða Icesave-skuldina sem aðgönguverð. Spurning er hvernig Össur Skarphéðinsson og undirmenn hans í utanríkisráðuneytinu ætla að tala sig frá þessari staðreynd. Ég ræddi um blekkingar þeirra um þetta í leiðara á Evrópuvaktinni í morgun áður en fréttin um ummæli hollenska fjármálaráðherrann barst. Hér má lesa leiðarann.

Samþykki vinstri-grænna á kröfu Samfylkingarinnar um aðildarumsókn að ESB var lykillinn að þessu stjórnarsamstarfi. Það var alls ekki ætlun þeirra Steingríms J. og Svavars Gestssonar að halda svo illa á Icesave-málinu að það setti aðildarviðræðurnar í uppnám. Þegar upp er staðið verður það kannski talið eina jákvæða framlag þeirra til Icesave-málsins.