6.4.2011

Miðvikudagur 06. 04. 11.

Að þessu sinni ræði ég við Reimar Pétursson hrl. í þætti mínum á ÍNN. Hann er fyrst á dagskrá klukkan 20.00 í dag og síðan á tveggja tíma fresti í sólarhring. Við ræðum um Icesave og dómstólaleiðina.

Já-menn vegna Icesave eru iðnir við að vitna í orð sem ég lét falla hér á síðunni 16. nóvember 2008 og lesa má hér. Benedikt Jóhannesson vitnar í þessa dagbókarfærslu í Fréttablaðinu í morgun. Ég sendi grein til blaðsins fyrir hádegi þar sem ég bregst við grein Benedikts, því að ég vil alls ekki að sú mynd sé gefin af skoðun minni að ég sé hlynntur Icesave III. Þvert á móti, ég segi nei í atkvæðagreiðslunni.

Síðdegis skoðaði ég amx.is og sá þá þetta. Þarna er vitnað í orð af fésbókarsíðu Árna Sigfússonar, bæjarstjóra í Reykjanesbæ, þar sem hann lýsir yfir stuðningi við Icesave III og birt tilvitnun sem sögð er af síðunni. Mér þótti hún kunnuleg og við athugun sá ég að um beina tilvitnun í orð mín frá 16. nóvember 2008 er að ræða. Nú hef ég ekki skoðað síðu Árna sjálfs og veit ekki hvort hann lætur þess getið að hann sé að vitna í mig eða ekki.

Sæki já-menn orð af síðu minni til stuðnings atkvæði sínu er hið minnsta að þeir láti heimildar getið, þá óska ég eftir því að þeir slíti ekki orð mín úr samhengi og loks að þeir taki rækilega fram að ég sé á móti Icesave III. Er sú afstaða í fullu samræmi við orð mín frá 16. nóvember 2008, því að grunntónn þeirra er að setja skuli hinn lagalega rétt framar öðru.