30.4.2011

Laugardagur 30. 04. 11.

Í dag eru 20 ár liðin frá því að Davíð Oddsson myndaði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Hún leiddi til mikilla framfara í þjóðfélaginu. Þær voru í hróplegri andstöðu við stöðnunina sem ríkir um þessar mundir og birtist meðal annars í dauðahaldi seðlabankans og ríkisstjórnarinnar í gjaldeyrishöftin. Þau eru ekki til framfara frekar en ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J.

Aflinn, félag gi gong iðkenda á Íslandi, efndi til stefnumóts við orkuna í Kaffi Flóru í Grasagarðinum í Laugardal í morgun í tilefni af 13. alþjóðadegi qi gong sem haldinn er síðasta laugardag í apríl. Hann hófst klukkan 10.00 að morgni í Nýja Sjálandi og þokaðist síðan áfram yfir jarðarkringluna með æfingum í ólíkum löndum.

Við ætluðum að æfa utan dyra en urðum að hætta við það vegna slyddu. Í staðinn fengum við inni í Kaffi Flóru, þar sem Gunnar Eyjólfsson leiddi hugleiðslu.