28.4.2011

Fimmtudagur 28. 04. 11.

Enn skýrist að ríkisstjórnin hefur staðið í vegi fyrir að samkomulag takist á vinnumarkaði. Ótrúlegt er að sjá Jóhönnu Sigurðardóttur láta eins og aðför hennar að sjávarútvegi hafi engin áhrif á afstöðu manna til stefnu ríkisstjórnarinnar.

Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru svo ótrúleg að menn hafa ekki kynnst öðru eins í 20 ár. Er það kannski skýringin á því hve fréttamenn eiga erfitt með að fóta sig á því hve illa ríkisstjórnin heldur á málinu. Engu er líkara en þeir telji eðlilegt að ráðherrar segi eitt í dag og annað á morgun og kenni síða Samtökum atvinnulífsins um það sem miður hefur farið.

Alvarlegur þáttur í vanda við stjórn landsins eru lélegir fjölmiðlar sem halda annað hvort ekki þræði í málum eða láta spunaliða stjórna því sem þeir segja. Vandinn er verstur þegar litið er til RÚV og hvernig tekið er á stórmálum þar.