5.4.2011

Þriðjudagur 05. 04. 11.

Stundum hvarflar að mér hvort ég hafi gert eitthvað á hlut Egils Helgasonar. Hvað eftir annað kýs hann að draga nafn mitt inn í eitthvert samhengi sem er aðeins til í heilabúi hans en á ekkert skylt við það sem ég hef sagt eða gert.

Í nokkra mánuði þurfti ég að takast á við ósannindi hans um að ég hefði sem dómsmálaráðherra lagt stein í götu þess að hafin yrði sakamálarannsókn vegna bankahrunsins. Hið gagnstæða var sannleikanum samkvæmt, þar sem ég lagði fram frumvarp og fékk samþykkt lög um hinn sérstaka saksóknara. Sá sem tók að sér embættið var hins vegar ekki nógu „fínn“ að mati Egils enda ekki úr 101 heldur ofan að Akranesi.

Nú birtast greinar í blöðum um að sá hópur manna sem helst hvetur til þess að samþykkja Icesave III sé fyrirfólk eða „elíta“. Ég minnist þess ekki að hafa fjallað um málið á þann hátt. Ég hef hins vegar bent á þá staðreynd að margir þeir sem helst báru hagsmuni Baugsmanna fyrir brjósti séu hlynntir Icesave III. Að ég líti á það fólk sem „elítu“ er fjarri sanni.

Egill Helgason dró gjarnan taum Baugsmanna á sinn sérkennilega hátt. Nú rennur honum blóðið til skyldunar og tekur til við að fjargviðrast yfir því að einhverjir segi já-menn við Icesave III „elítu“ og fullyrðir á vefsíðu sinni að ég geri það. Hvar hef ég gert það? spurði ég sjálfan mig þegar ég las þessa útlistun Egils Helgasonar.

Ég spyr enn og aftur hvernig er unnt að líta á mann sem reynir að ná sér niðri á fólki á þann hátt sem Egill gerir í pistlum sínum sem óhlutdrægan þáttastjórnanda á ríkisfjölmiðli. Að slíkt sé gert sýnir aðeins hve illa er komið fyrir íslenskum fjölmiðlum. Hvernig væri að Egill kastaði af sér gærunni og færi bara í framboð eins og margir forverar hans?