19.4.2011

Þriðjudagur 19. 04. 11.

Strax sunnudaginn 10. apríl bloggaði Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Dana, yfirlætislega um niðurstöðuna og talaði niður til okkar Íslendinga. Skrif hans báru ekki vitni um mikla þekkingu á Icesave-málinu þótt hann telji sig færan um að setjast þar í dómarasæti.

Í kvöld sýndi sjónvarpið brot úr þætti á TV2 þar sem þeir segja álit sitt á því sem helst er í fréttum Uffe og Mogens Lykketoft, fyrrverandi formaður danskra jafnaðarmanna.  Uffe fór óvinsamlegum eða réttara sagt dónalegum orðum um Ólaf Ragnar og Lykketoft lét einnig óvinsamleg orð falla.

Þessi framganga hinna fyrrverandi dönsku stjórnmálaforingja var þeim lítt til sóma og afsannar allar kenningar um að stjórnmálaumræður hér séu á lægra plani en í útlöndum. Hvers vegna þessum mönnum er svona uppsigað við það sem gerst hefur hér vegna Icesave er erfitt að skilja. Tónninn í þeim er allur annar og verri en til dæmis í leiðara The New York Times í dag sem telur okkur Íslendinga hafa farið betur að ráði okkar en Írar hafi gert.

Eftir þingkosningar 2007 krafðist Steingrímur J. Sigfússon þess af ungum framsóknarmönnum að þeir bæðu sig afsökunar á skopmynd eða skopmyndum sem þeir birtu af honum. Ég vissi aldrei af hvað þessar myndir sýndu. Nú fara menn mikinn og þar á meðal Landssamband framsóknarkvenna vegna skopmyndar af Siv Friðleifsdóttur sem birtist í Morgunblaðinu og hefur teiknarinn beðið Siv afsökunar.

Europol birti í dag lýsingu á hryðjuverkum og hættunni á þeim í Evrópu. Þar eru skopmyndir af Múhameð spámanni talin helsta kveikjan að slíkum ógnarverkum.

Þegar ég vann á Morgunblaðinu var stundum kvartað undan teikningum Sigmund. Hann stóð hins vegar fast á rétti sínum til að teikna eins og hann sjálfur taldi best og vafalaust hafa einhverjar mynda hans sært sömu tilfinningar og myndin af Siv gerir. Ég man þó aldrei eftir sambærilegum upphrópunum og nú eða ákalli til eigenda blaðsins vegna skopteikninga fyrr en nú.