7.4.2011

Fimmtudagur 07. 04. 11.

Í morgun klukkan 08.00 tók ég þátt í umræðum á Bylgjunni, Ísland í bítið, með Eiði Guðnasyni. Við vorum á öndverðum meiði um Icesave.

Ég velti fyrir mér eftir þáttinn þverstæðunni í þeirri afstöðu já-manna að skammast annars vegar yfir því að bankarnir hafi verið einkavæddir og afhentir mönnum sem þeir telja að hafi ekki kunnað að reka þá og síðan telja sjálfsagt að skattgreiðendur borgi tapið eftir að bankarnir eru farnir á hausinn. Með einkavæðingu bankanna var horfið frá ríkisábyrgð á þeim. 

Í Bretlandi og Hollandi tóku viðskiptavinir Icesave meiri áhættu en aðrir til að ná í hærri vextir en í öðrum bönkum. Eiga íslenskir skattgreiðendur að standa straum af aðgerðum breskra og hollenskra stjórnvalda við að tryggja þessu fólki að það tapi ekki á því að taka þessa áhættu?

Þegar bent er á að ekki hvíli nein lögbundin skylda á íslenskum skattgreiðendum í þessu efni, segja já-menn að siðferði þeirra bjóði þeim að endurgreiða hollenska og breska ríkinu. Við þessum sjónamiðum segi ég nei.

Ég segi einnig nei við því að ekkert sé hættulegra í þessu máli en láta reyna á rétt Íslendinga fyrir dómstóli eða dómstólum.

Enn segi ég nei við því að láta matsfyrirtæki ráða afstöðu minni. Þau njóta sífellt minna álits og eru í raun óútreiknanleg. Þau blekktu í lýsingum sínum á styrkleika íslensku bankanna fram undir hrun.

Loks segi ég almennt nei við hræðsluáróðrinum vegna Icesave án samninga. Hann hefur reynst rangur í rúm tvö ár eða frá því að Steingrímur J. tók að beita honum.

Ég ítreka hvatningu mína um að segja nei og fella Icesave-lögin.