22.4.2011

Föstudagur 22. 04. 11.

Fréttir berast af Jóni Gnarr, borgarstjóra í Reykjavík, í sjónvarpsviðtali í New York þar sem hann heldur áfram að hæla sjálfum sér og hallmæla pólitískum andstæðingum sínum í borgarstjórn Reykjavíkur. Hann minnir á útrásarvíkingana sem fóru um heiminn til að kynna honum að þeir væru klárari en aðrir og Ísland væri eiginlega of lítið fyrir þá, enda ættu þeir í höggi við heimóttarlega stjórnmálamenn sem áttuðu sig ekki á hæfileikum þeirra.

Ég fagna því að Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, hefur sagt skilið við forsetastól borgarstjórnar þar sem hún vildi sitja til að stuðla að samhug og samvinnu um stjórn borgarmála. Hvorki Jón Gnarr né Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, mátu þennan samstarfsvilja nokkurs.

Samfylkingin ber ábyrgð á Jóhönnu Sigurðardóttur í embætti forsætisráðherra og Jóni Gnarr í embætti borgarstjóra. Að flokkur sem vill að hann sé tekinn alvarlega skuli standa að baki slíkum forystumönnum sýnir ekki mikinn metnað. Hitt er vera að borgarbúar og þjóðin súpa seyðið af þessu.