15.4.2011

Föstudagur 15. 04. 11.

Nú berast fréttir um að samið hafi verið til tveggja mánaða eða svo. Ástæðan er ekki Icesave, ekki heldur deila um fiskveiðistjórnun heldur að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að skuldbinda ríkissjóð til langs tíma. Hún hefur ekki vald á málum til lengri tíma heldur en fram yfir næstu helgi, eins og kunnugt er.

Spenna magnast innan þingflokks Samfylkingarinnar eins og birtist í þingsalnum í dag þegar þær tókust á um þingsköpin flokkssysturnar Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti alþingis, og Ólína Þorvarðardóttir.  Ólína er einörð í stuðningi sínum við Jóhönnu Sigurðardóttur. Innan þingflokks Samfylkingarinnar vaxa efasemdir um skynsemi þess að slá skjaldborg um Jóhönnu, þar sem ekki þjóni neinum tilgangi lengur að halda lífi í ríkisstjórninni. Dauðastríð stjórnarinnar verði aðeins til að auka á vanda Samfylkingarinnar.