27.4.2011

Miðvikudagur 27. 04. 11.

Í dag hringdu þeir í mig í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni, Kristófer og Þorgeir, og spurðu mig um Schengen-samstarfið. Skýrði ég fyrir þeim að það snerist um annað og meira en vegabréfaeftirlit. Taldi ég fróðlegt að vita hvort það héldi aftur af afbrotamönnum að koma frá Bretlandi hingað að þurfa að fara í genum vegabréfaskoðun. Bretar glíma við alþjóðlega glæpastarfsemi ekki síður en við, þótt þeir séu ekki í Schengen. Þeir njóta hins vegar góðs af lögreglusamstarfi undir merkjum Schengen af þvi að þeir eru í ESB.

Ég sé hins vegar á vefmiðlum að orð mín um Schengen vöktu ekki athygli annarra heldur það sem ég hafði að segja um Baugsbókina sem ég er að ljúka og verður um 400 bls. og kemur út í maí ef allt gengur að óskum. Baugsmálið var ekki aðeins rekið fyrir dómstólum heldur einnig á vettvangi stjórnmála og fjölmiðla. Þann þátt málsins rek ég ítarlega í bók minni. Hún spannar mikið umrót í þjóðlífinu árin 2002 til 2008 og segir jafnframt sögu Baugs og Baugsmiðlanna.

Þetta er spennandi viðfangsefni sem varpar ljósi á viðskiptalíf og stjórnmálalíf og þar sem sagt er frá valdabaráttu sem er mögnuð og harðskeytt þegar hún er dregin saman á þann hátt sem ég geri í þessari bók. Mér þætti ekki ólíklegt að ýmsir líti þjóðlífið öðrum augum eftir að hafa lesið hana.