10.4.2011

Sunnudagur 10. 04. 06.

Úrslitin um Icesave urðu 60% á móti og 40% um 75% þátttaka. Glæsileg niðurstaða fyrir okkur sem börðumst gegn Icesave III. Ríkisstjórnin lætur eins og hún geti haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist sem er út í bláinn.

Steingrímur J. þorir ekki annað en skipta um formann í þingflokki sínum, setur Guðfríði Lilju af án aðdraganda og lætur kjósa Árna Þór Sigurðsson í staðinn. Þeir Steingrímur J. og Árni Þór hafa siglt VG frá hverju málefninu eftir annað í þágu aukinna valda. Nú gera þeir atlögu að feministum í flokknum.

Jóhanna Sigurðardóttir talar eins og hún hafi óskorað vald á þingflokki Samfylkingarinnar. Undir þingmönnum flokksins er komið hve lengi hin dáðlausa, fylgi rúna ríkisstjórn situr.  Úr því sem komið er hlýtur að saxast jafnt og þétt af fylgi Samfylkingarinnar. Helsta baráttumál hennar, ESB-aðildin, er í raun strandað á skeri vegna hins óleysta Icesave-máls. Eftir flokksþing framsóknarmanna er Samfylkingin auk þess eini stjórnmálaflokkurinn sem telur Íslandi betur borgið innan en utan ESB.

Ríkisstjórnin segist hafa miklar áhyggjur af áliti þjóðarinnar út á við eftir að hún tapaði Icesave í þriðja sinn. Tvennt getur gert tafarlaust til að bæta úr álitshnekkinum. Viðurkennt ósigur og sagt af sér, lagt ESB-umsóknina á ís.

Ólafur Ragnar Grímsson efndi til blaðamannafundar klukkan 15.00 í dag. Þegar hann tók að lýsa stöðu Icesave og hvernig taka ætti til varna fyrir málstað Íslands, sást glöggt hve ömurlega illa Jóhanna og Steingrímur J. halda á málinu. Augljóst er að Ólafur Ragnar ætlar að enn að nýta Icesave til afskipta af stjórnmálum innan lands og utan.

Ég vona að stjórnarandstaðan láti Jóhönnu ekki draga sig til einhverra viðræðna um eitthvað sem ekkert er en þjónar þeim eina tilgangi að beina athygli frá úrræðaleysi hennar og ríkisstjórnarinnar. Hún lætur nú eins og öllu skipti að flokkar stilli saman strengi sína. Þótt þeim dytti í hug að gera það breytir það engu ef skilyrðið er að Jóhanna og Steingrímur J. sitji áfram með alla þræði í hendi sér. Þau eru meiri skaðvaldur nú fyrir hagvöxt og umsvif í landinu en Icesave.

Ég skrifaði pistil um Icesave og ESB á Evrópuvaktina og hann má lesa hér.