14.4.2011

Fimmtudagur 14. 04. 11.

Í kvöld sat ég aðalfund Heimssýnardeildarinnar í Rangárþingi eystra. Hann var haldinn í gólfskálanum Strönd. Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, flutti framsögu ásamt mér og síðan svöruðum við fyrirspurnum.

Mér er óskiljanlegt að ríkisstjórnin haldi ESB-viðræðunum áfram, eftir útreiðina í vantraustsumræðunum. Þó er borin von að hún hætti á meðan Jóhanna Sigurðardóttir heldur um stjórnvölinn. Þvermóðska hennar leyfir það ekki eða á ég frekar að segja dómgreindarleysi. Þingmenn Samfylkingarinnar treysta sér ekki til að reyna að hafa vit fyrir henni. Jóhanna situr á þeirra ábyrgð.

Tveir þingmenn Framsóknarflokksins hrópa á Jóhönnu og bjóða henni stuðning. Hún hefur ekki einu sinni sveigjanleika til að taka þeim fagnandi heldur segist vita af þeim og ætla að nota þá, þegar hún þurfi á þeim að halda. Meiri lítilsvirðingu gat hún ekki sýnt þeim samt halda Siv Friðleifsdóttir og Guðmundur Steingrímsson áfram að gera hosur sínar grænar fyrir Jóhönnu. Sýnir það hve mjög þau óttast kosningar. Þau gera sér grein fyrir að þeim verður ekki tekið fagnandi í prófkjörum Framsóknarflokksins.

Jón Gnarr hefur enn afhjúpað hve óhæfur hann er að koma fram fyrir Reykvíkinga. Nú leggur hann rækt við friðarást sína með því að neita að sýna yfirmönnum þriggja þýskra herskipa í Reykjavíkurhöfn þá kurteisi sem þeim ber. Eitt er að þjóna lund sinni á þennan hátt, annað að gera það fyrir opnum tjöldum með því að láta fjölmiðla vita af því og opinbera þannig dónaskapinn. Ég er sannfærður um að meirihluti borgarbúa hefur skömm á þessari sýndarmennsku Jóns Gnarrs.