24.4.2011

Sunnudagur 24. 04. 11.

Gleðilega páska!

Fórum í páskamessu í Marteinstungukirkju í Rangárþingi ytra þar sem sr. Halldóra Þorvarðardóttir, prófastur, prédikaði. Að messu lokinni var okkur boðið í kirkjukaffi í safnaðarheimili við kirkjuna.

Þess er minnst að 23. apríl voru 10 ár liðin frá því að Fréttablaðið kom til sögunnar. Sumarið 2002 lá við að blaðið yrði gjaldþrota en þá seldu Gunnar Smári Egilsson og Ragnar Tómasson hrl. það til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugi. Hvíldi leynd yfir eignarhaldi hans á blaðinu þar til í maí 2003. Í mars 2003 birti blaðið rúmlega ársgamlar glefsur úr fundargerðum stjórnar Baugs til að koma höggi á Davíð Oddsson fyrir þingkosningarnar þá um vorið. Jón Ásgeir þóttist þá koma af fjöllum vegna uppjóstrana blaðsins sem voru liður í áróðrinum um að Baugsmálið byggðist á pólitískum ofsóknum. Samfylkingin lagði Baugsmönnum lið í þeim áróðri í kosningabaráttunni 2003 og þar til Baugsmálinu lauk í júní 2008.

Fréttablaðið hefur verið þungamiðja Baugsmiðlanna síðan 2002. Því var beitt af miklum þunga í fjölmiðlamálinu 2004. Óljóst er um eignarhald á því um þessar mundir fyrir utan að Ingibjörg S. Pálmadóttir lagði útgáfunni til stórfé fyrir um það bil ári.