Sunnudagur 25. 03. 12
Qi gong kyrrðardögunum í Skálholti lauk klukkan 13.00 í dag. Séra Egill Hallgrímsson messaði klukkan 11.00 og lagði út af guðspjallinu á boðunardegi Maríu. Í tilefni dagsins efndi Hörður Áskelsson til orgeltónleika í Hallgrímskirkju ásamt fimm manna karlakór sem söng á móti orgelinu í orðsins fyllstu merkingu.
Sagnfræðikunnátta Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur, ritstjóra málgagns VG, Smugunnar, er ekki mikil þegar hún segir í fyrirsögn á vefsíðunni „Björn tekur McCarthy á forsetaframbjóðanda“. Með þessari undarlegu yfirlýsingu víkur Þóra full hneykslunnar að því sem ég sagði á Evrópuvaktinni laugardaginn 24. mars eftir að könnun sýndi að Þóra stæði næst því að koma Ólafi Ragnari frá Bessastöðum. Ég sagði:
„Þóra Arnórsdóttir er vinstrisinnuð kona, ýmsir hafa spáð henni formennsku í Samfylkingunni, en nú vill formaður fulltrúaráðs flokksins í Reykjavík [Kjartan Valgarðsson] hana frekar sem forseta. Þóra mun ekki hafa roð við Ólafi Ragnari leggi hún til atlögu við hann. Hún kann hins vegar ef til vill að hafa lokið ferli sínum á sjónvarpi ríkisins með því að ljá máls á framboði.
Þeir sem ætla að ýta Ólafi Ragnari frá Bessastöðum verða að bjóða betri nöfn en birtast þessum lista.“
Þeir sem kenna þessi orð við McCarthy hafa brenglaða sýn á söguna, viti þeir nokkuð um hana. Viðfangsefni mitt er: 1. Samfylkingin vill Þóru í forsetaframboð. 2) Hún hefur verið nefnd sem formannsefni í flokknum og er því vinstrisinnuð. 3. Hún hefur ekki roð við Ólafi Ragnari. 4. Hve langt geta frétta- eða fréttaþáttamenn RÚV gengið í virkri þátttöku í þjóðfélagsbaráttu án þess að fyrirgera rétti sínum til að starfa hjá RÚV?
Það hefði verið meira spennandi að Smugan hefði leitað álits Bjargar Evu Erlendsdóttur, stjórnarformanns RÚV, á stöðu Þóru Arnórsdóttur en að jagast með fúkyrðum í mér. Hæg eru heimatökin, Björg Eva var hluthafi í Smugunni.
Ég styð ekki Ólaf Ragnar til endurkjörs, ég leita ekki heldur að neinum frambjóðanda til að fella hann. Enginn þeirra sem nefndur hefur verið til sögunnar sem andstæðingur hans hefur roð við honum. Hagur þeirra vænkast ekki með furðulegum málflutningi Þóru Kristínar eða annarra sem hallast að málstað krúttkynslóðarinnar sem nú getur fræðst um marxisma-lenínisma undir merkjum VG, eiganda Smugunnar.