18.3.2012 21:47

Sunnudaginn 18. 03. 12

Sigurjón Þórðarson hefur verið formaður Frjálslynda flokksins sem í dag varð formlega hluti af nýjum stjórnmálasamtökum sem nefnast Dögun ef bloggfærsla hans er rétt skilin. Hann lýsir markmiði nýja flokksins á þennan veg:

„Baráttan sem er framundan mun ekki snúast um vinstri eða hægri. Hún mun snúast um hvort að hér verði áfram sérhagsmuna- og klíkusamfélag. Fólk sem vill ná árangri í krafti eigin dugnaðar eða verðleika – hlýtur að vilja róttækar breytingar.“

Þegar Sigurjón kveður sér hljóðs sem siðbætandi stjórnmálamaður rifjast upp fyrir mér hve ákaft hann studdi málstað Baugsmanna á tíma Baugsmálsins eins og sjá má í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi. Það fer slíkum manni ekki vel að þykjast andstæðingur sérhagsmuna- og klíkusamfélags. Önnur eins klíka hefur ekki hreiðrað um sig í íslensku samfélagi og sú sem myndaðist í kringum Baugsmenn. Sigurjón vílaði ekki fyrir sér að taka málstað hennar.

Af fréttum mál skilja að hinn nýi flokkur sé án formanns en búi við talsmenn í einstökum málaflokkum. Skyldi Sigurjón hafa verið valinn til að tala á móti klíkum eða kannski auðhringjum? Hann á að minnsta kosti ekki á hættu að Baugsmenn vilji að hann þegi.