Fimmtudagur 22. 03. 12
Í dag var þess minnst á ÍNN að fimm ár eru frá því að stöðin fór í loftið að frumkvæði Ingva Hrafns Jónssonar og hefur hann haldið henni úti síðan af miklum dugnaði og forsjálni. Ég kom að stöðinni í ágúst 2010 þegar Ingvi Hrafn bað mig að annast þátt á tveggja vikna fresti, það er annan hvorn miðvikudag og hef ég gert það síðan. Í nýjasta þættinum ræddi ég við Stefán Mána rithöfund og má sjá hann hér. Markmið mitt er ekki að stilla viðmælendum upp við vegg heldur fræðast af þeim.
Furðulegt var að sjá Helga Hjörvar, formann efnahagsnefndar alþingis, láta á þingi í gær eins og um eitthvert myrkraverk hefði verið að ræða þegar Seðlabanki Íslands lánaði Kaupþingi fé í október 2008 með veði í danska FIH bankanum. Þegar frumvarpið að neyðarlögunum var fyrst kynnt var ákvæði um þessa ráðstöfun í texta þess en síðan hvarf það á brott þar sem ekki þótti ástæða til að lögfesta neitt um málið. Þingmönnum hefur því verið kunnugt um þessar ráðstafanir frá fyrsta degi.
Einar Kristinn Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir á vefsíðu sinni að Helgi hafi vakið máls á þessu til að draga athygli frá vaxtahækkun seðlabankans fyrr þennan sama dag. Ég dreg ekki þessa skýringu í efa þótt ég telji aðra nærtækari. Hún er sú að samfylkingarfólki hafi ekki þótt takast sem skyldi í yfirheyrslum í landsdómsmálinu og nú þurfi að grípa til sérstakra aðgerða til að gera þá Davíð Oddsson og Geir H. Haarde tortryggilega.
Þessa skoðun reisi ég á endurteknum fréttum í RÚV um að símtöl seðlabankamanna séu hljóðrituð og eru þar endurtekin ummæli Helga Hjörvars sem birt voru í fréttatíma. Ætlunin virðist vera að knýja fram umræður um eða kannski birtingu á símtali þeirra Davíðs og Geirs. Takist það ekki að stofna til spuna í kringum samtalið og gera það tortryggilegt.