29.3.2012 21:43

Fimmtudagur 29. 03. 12

Miðað við það sem Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagði í Kastljósi kvöldsins er erfitt að komast að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hafi framið lögbrot. Þó er þess að gæta að höft og yfirvöld sem hafa það hlutverk að setja tappa alls staðar þar sem þau telja leka eða hættu á honum sjást ekki alltaf fyrir í málatilbúnaði sínum. Þorsteinn Már fékk því miður ekki tækifæri til að segja frá ágreiningi Samherja við Seðlabanka Íslands vegna gjaldeyrishaftanna. Fréttir af þeim átökum voru sagðar fyrir nokkru og juku ekki á virðingu seðlabankans. Þá var ekki vikið að því í þættinum hvort tilviljun réði því að gerð var húsleit hjá Samherja að ósk seðlabankans þegar ríkisstjórnin hóf aðför að útgerðinni með enn einu misheppnaða frumvarpinu um stjórn fiskveiða.

Á Evrópuvaktinni má lesa þau orð sem Jóhanna Sigurðardóttir lét falla um Jón Bjarnason sem duglausan sjávarútvegsráðherra og svar Jóns og gagnrýni á Jóhönnu. Hið furðulega í málinu er að Jón skuli styðja ríkisstjórn undir forsæti Jóhönnu. Jón verður jafn marklaus og Steingrímur J. Sigfússon er orðinn sem stjórnmálamaður ef hann heldur áfram að styðja ríkisstjórn undir forsæti stjórnmálamanns sem hann hefur lýst sem friðarspilli. Jón lýsti Jóhönnu á þann veg.

Ég les á mbl.is klukkan 21.25 í kvöld: „Eftir skoðanakönnunina um síðustu helgi, sem að benti til að meirihluti þjóðarinnar óskaði eftir endurnýjun í forsetaembættinu, hefur stór hópur haft samband við mig og í þeim hópi eru meðal annars einstaklingar sem áður hafa haft samband. Þetta ber brátt að en ég ber mikla virðingu fyrir þessu fólki og af sjálfsögðu þá íhuga ég þetta og tek ákvörðun alveg á næstunni,“ sagði Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.

Taki Kristín ákvörðun um að bjóða sig fram tel ég að Ólafur Ragnar megi fara að passa sig.