7.3.2012 21:00

Miðvikudagur 07. 03. 12

Í dag ræddi ég við Skúla Magnússon, ritara EFTA-dómstólsins, í þætti mínum á ÍNN sem verður sýndur í kvöld klukkan 22.00 og á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00. Við ræddum um stjórnlagabreytingar og meðferð Icesave-málsins fyrir EFTA-dómstólnum en íslenska ríkið á að skila greinargerð sinni vegna málsins á morgun 8. mars. Af samtalinu má ráða að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefði ekki höfðað málið gegn Íslandi nema með samþykki framkvæmdastjórnar ESB, að minnsta kosti ekki í andstöðu við hana.

Icesave-málið mun draga þungan dilk á eftir sér verði niðurstaðan sú að ríkisábyrgð sé á innstæðum banka samkvæmt EES-reglum. Hvernig munu ríkissjóðir stórskuldugra evru-ríkja getað axlað slíka ábyrgð? Verði talið að íslensk stjórnvöld hafi mismunað innstæðueigendum  vaknar spurning um hvað felst í þeirri niðurstöðu. Hver mun leita skýringar á því?

Skúli færir skýr rök fyrir því að hreint glapræði sé að halda á stjórnarskrármálinu eins og gert hefur verið undir stjórn Jóhönnu  Sigurðardóttur.  Stjórnarflokkarnir skutu sér á bakvið þingsályktunartillögu sem flutt var í byrjun október 2011 undir forystu Þórs Saaris til að koma stjórnarskrármálinu aftur í hendur stjórnlagaráðs. Að fallist var á gjörbreytta tillögu Þórs varð til þess að hann og tveir aðrir þingmenn Hreyfingarinnar hétu ríkisstjórninni stuðningi.

Þór Saari tekur varla til máls á alþingi án þess að hallmæla því sem stofnun og öllu sem gerist innan veggja þess, hann telur sig greinilega þess umkominn að bæta stjórnmálin og stjórnarstofnanir. Ég man hins vegar ekki eftir því að geðlæknir, afbrotafræðingur og lögregla hafi talið óhjákvæmilegt að setja ofan í við þingmann á þann hátt sem gert hefur verið við Þór Saari vegna dómgreindarbrests hans sem birtist í skrifum eftir að ráðist var á starfsmann í lögfræðistofu við Lágmúla með hnífi fyrr í vikunni.

Helgi Seljan leitaðist við að fá Þór Saari  til að viðurkenna villu síns vegar í Kastljósi kvöldsins. Það var eins og skvetta vatni á gæs. Þór er sannfærður um að hann hafi ekki gert neitt ámælisvert. Helgi lét Þór ekki slá sig út af laginu með forherðingu sinni. Helgi leiddi fram að vegur alþingis vex ekki með því að Þór Saari sitji þar – þvert á móti dregur hann úr virðingu þingsins. Ástæðan fyrir því að Þór styður ríkisstjórnina er sú að hann vill draga í lengstu lög að gengið verði til kosninga – Hreyfingin mælist með 2 til 3% fylgi.