28.3.2012

Stjórnlagatillögur í tímaþröng - alþingi ber að stöðva málið

Í umsögn um bókina Þingræði á Íslandi í tímaritinu Þjóðmálum sagði ég hana skyldulesningu fyrir alla sem vilja átta sig á störfum alþingi og samhenginu í þeim. Þar eru reifuð ýmis dæmi úr þingsögunni sem sýna hvernig menn beita þeim tækjum sem þeir ráða yfir til að berjast fyrir málstað sínum. Málþóf er sú aðferð sem oftast er beitt enda er það öflugasta úrræði stjórnarandstöðunnar og dugði okkur til dæmis í mars og apríl til að koma í veg fyrir þá fásinnu Jóhönnu Sigurðardóttur að ætla að afsala alþingi stjórnarskrárvaldinu.

Nú liggur afbrigði af þessu tilræði Jóhönnu við vald alþingis fyrir þinginu í tillögum stjórnlagaráðs sem forsætisráðherra klastraði saman eftir hinar ógildu stjórnlagaþingskosningar haustið 2010.

Ráðið skilaði tillögum sínum sumarið 2011, þingnefnd tók þær til meðferðar og afgreiddi óbreyttar til stjórnlagaráðs í skjóli tillögu sem Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, flutti upphaflega. Samþykkt þeirrar vitlausu tillögu í gjörbreyttri mynd var lykillinn að því að Hreyfingin ver ríkisstjórnina vantrausti.  Tillagan hafði í raun ekkert með stjórnarskrána að gera enda hafði meirihluti stjórnarskrár- og eftirlitsnefndar ekkert til málanna að leggja. Stjórnlagaráðið fundaði og sendi málið aftur til þingsins.

Samdar hafa verið tillögur að spurningum sem ætlunin er að leggja fyrir þjóðina í forsetakosningunum 30. júní 2012. Þær hafa verið kynntar landskjörstjórn sem segir spurningarnar meingallaðar. Fyrri umræða um þessar spurningar fór fram á alþingi þriðjudaginn 27. mars og lauk þeim rúmlega 01.00 aðfaranótt miðvikudags 28. mars, stjórnarandstaðan er eindregið á móti þessari tillögu. Hún greip til ráðs sem hún hefur og kom í veg fyrir að tillögunni yrði vísað að nýju til stjórnarskrár- og eftirlitsnefndar þá um nóttina. Stjórnarsinnar eru að sjálfsögðu reiðir yfir þessu eins og sjá má á pistli sem Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, ritaði á vefsíðu sína um svipað leyti og atkvæðagreiðslan átti að verða. Hún segir:

„Nú er klukkan að verða hálf tvö um nótt og ég sit hér í þinghúsinu. Fyrstu umræðu um þingsályktun um þjóðaratkvæðagreiðslu er nýlega lokið og í lok hennar átti að vísa málinu til nefndar eins og venja er „ef enginn hreyfir andmælum við“. Þá er hægt að koma með athugasemd, t.d. ef manni finnst málið frekar eiga heima í annarri nefnd. Í kvöld (ja eða nótt) gerðust hins vegar þau undur og stórmerki að Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, gerði athugasemdir við að málinu væri yfir höfuð vísað til nefndar og kallaði eftir atkvæðagreiðslu um það. Þá fóru menn að hringja í liðið sitt og kalla það í hús en 32 þingmenn þurfa (svo) til svo atkvæðagreiðsla geti farið fram. Þingmenn Framsóknarflokksins yfirgáfu húsið þrátt fyrir að samkvæmt þingsköpum, sem eru landslög, beri þingmönnum að vera viðstaddir atkvæðagreiðslur:

71. gr.]1) Eigi má gera neina ályktun nema meira en helmingur þingmanna sé á fundi og taki þátt í atkvæðagreiðslunni, sbr. 53. gr. stjórnarskrárinnar. Þingmaður, sem er á fundi en greiðir ekki atkvæði við nafnakall [eða við atkvæðagreiðslu með rafeindabúnaði],2) telst taka þátt í atkvæðagreiðslunni.
Description: http://www.althingi.is/lagas/hk.jpg2)
Description: http://www.althingi.is/lagas/hk.jpg Skylt er þingmanni að vera viðstaddur og taka þátt í atkvæðagreiðslu nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi.

Sjálfstæðisflokkurinn veit að óvenjumargir þingmenn stjórnarflokkana eru í burtu vegna þingstarfa erlendis og gerðu heiðursmannasamkomulag við Samfylkinguna um að para menn út í atkvæðagreiðslu um lengd þingfundar fyrr í dag. Menn vissu því að ekki tækist að manna atkvæðagreiðsluna, sérstaklega á þessum tíma dags þegar venjulegt fólk er sofandi.

Við höfum sem sagt hringt út og suður, rifið fólk upp úr rúmunum til að reyna að komast nær því að þjóðin fái að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá en fulltrúar Gamla Íslands, fólkið sem vill alls ekki vita hvort þjóðin vilji ákvæði um auðlindir í stjórnarskrá eða hvort atkvæðisréttur fólks verði jafn á landsvísu, skrópar og brýtur í leiðinni landslög svo atkvæðagreiðslan geti ekki farið fram.

Á Gamla Íslandi voru hlutirnir nefnilega í lagi er þeir voru ekki sérstaklega bannaðir. Og þeim trikkum ætla menn að beita til þess að stöðva framfarir og breytingar. Svei!“

Þetta er dæmalaus texti. Einkennilegast er að Margrét skuli gera þá kröfu til stjórnarandstöðunnar sem er á móti þessu máli að hún tryggi framgang þess. Þá vitnar hún í þingsköp – eiga þau ekki við um stjórnarþingmenn? Hvað veldur því að þeir sátu ekki í þinghúsinu eða skrifstofum sínum og fylgdust með lyktum umræðunnar og fylktu þá liði til að veita málinu brautargengi – eru þeir ekki 32?

Margrét birtir lagatexta til að hneykslast á framsóknarmönnum. Á þessi texti ekki við um þá þingmenn sem sváfu á sínu græna eyra heima hjá sér? Margrét bendir á að sjálfstæðismenn aðstoðuðu stjórnarflokkana við að koma málinu þannig fyrir á dagskránni að menn vissu um lengd þingfundarins.  Þeir hafa aldrei lofað að tryggja framgang málsins.

Í bókinni um Þingræði á Íslandi kemur einmitt fram að sé ekki sátt um mál er sjálfsagt og eðlilegt að menn beiti þeim ráðum sem þeir hafa gegn því á alþingi. Til þess eru leikreglur lýðræðisins að menn geti varist ofríki og þingsköpin veita svigrúm í því skyni. Vandræði stjórnarsinna sem Margrét lýsir eru vegna þess hve þeir eru máttlausir en ekki vegna hins að stjórnarandstaðan geri annað en á hennar valdi er.

Hreyfingin festir sig sífellt meira við stjórnarflokkana. Sé það til marks um að Nýja Ísland sé í sókn verður þess ekki vart í skoðanakönnunum. Þingmenn Hreyfingarinnar vilja að ríkisstjórnin lifi sem lengst til að komast hjá þingkosningum þar sem enginn þeirra nær endurkjöri miðað við kannanir. Slagorð um nýtt eða gamalt Ísland eru ekki til marks um neitt annað en málefnalega uppgjöf.

Síðasta efnisgreinin í reiðipistli Margrétar gefur til kynna að hún telji tillögur stjórnlagaráðs fela í sér „framfarir“. Hún færir að vísu engin rök fyrir því enda hafa stuðningsmenn tillagnanna ekki talið sér skylt að rökræða efni málsins opinberlega, þeir tala bara í frösum og slagorðum.

Áður er minnst á athugasemdir landskjörstjórnar sem snúast meðal annars um að ekki sé unnt að leggja fyrir kjósendur spurningar sem séu svo opnar að ekki sé með góðu móti unnt að svara þeim með því að segja já eða nei. Það virðist hafa runnið upp fyrir meirihluta stjórnarskrár- og eftirlitsnefndar að galli væri á tillögum stjórnlagaráðs og þess vegna vill nefndin að í fyrstu spurningunni sé fyrirvari.

 

Stjórnarflokkarnir og Hreyfingin vilja spyrja kjósendur: „Vilt þú að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga?“

Landskjörstjórn segir spurninguna ekki nægilega skýra og vísar þá til orðanna „eftir að hún [tillaga stjórnlagaráðs] hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga“. Landskjörstjórn leggur til að þessi hluti spurningarinnar hverfi.

Hverfi þessi fyrirvari hverfur jafnframt varnaglinn sem er sleginn með honum vegna þeirrar hrákasmíðar sem tillögur stjórnlagaráðs eru. Hér skal ekki farið í saumana á þeim en hins vegar bent á tvær greinar í blöðunum miðvikudaginn 28. mars um tillögurnar.

Skúli Magnússon, ritari EFTA-dómstólsins, sem sat í stjórnlaganefnd í aðdraganda stjórnlagaráðs, bendir í Fréttablaðinu á að meðferð ráðsins á „þjóðareign“ veki fleiri spurningar en hún svari, skapi meiri vanda en ætlað er að leysa.

Bjarni Halldór Sigursteinsson, lögfræðingur og lögreglumaður, segir í Morgunblaðinu að takmarkanir á félagafrelsi séu  heimilar á Íslandi umfram það sem segi í texta stjórnarskrár lýðveldisins.  Bjarni vekur einnig athygli á að tillögur stjórnlagaráðs svipti stjórnvöld heimildum í þessu efni. Það stangist á við umræður líðandi stundar um bann við skipulögðum glæpafélögum.  

Hér eru nefnd tvö dæmi sem sýna hve mikilvægt er að skoða og ræða efni tillagna stjórnlagaráðs á allt annan hátt en gert hefur verið á alþingi til þessa þar sem kappið er á að ljúka málinu í stað þess að ræða það, Jóhanna þarf að skora stig eins og hún ætlaði fyrir kosningarnar 2009.

Alþingi verður að samþykkja fyrir 24.00 fimmtudaginn 29. mars að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu 30. júní um tillögur stjórnlagaráðs, takist það ekki verður atkvæðagreiðslan ekki. Verði haldið á þessu máli þannig á alþingi að það verði tækt til endanlegrar afgreiðslu eftir 36 klukkustundir er augljóst að áfram verður kastað til þess höndunum.

Heiður alþingis er ekki síður í húfi núna en fyrir þremur árum. Skorað er á þingmenn að stöðva þessa aðför að stjórnarskránni. Sé hún til marks um stjórnarhætti Nýja Íslands ber að hefta framgang þeirra með öllum ráðum sem lýðræðislegar leikreglur leyfa.