Miðvikudagur 14. 03. 12
Í gær vakti ég máls á því hér á síðunni að Guðrún Helgadóttir, þingmaður Alþýðubandalagsins, hefði hneykslast á því vorið 1995 að ég hefði tekið upp tölvusamskipti sem menntamálaráðherra á netinu. Guðrún skrifaði grein um þessi ósköp í Morgunblaðið 12. maí 1995 og sagði meðal annars:
„Á þessu skipulagi [tölvusamskiptum menntamálaráðherra] er aðeins einn smágalli. Til er fólk eða svona milliliðir í landinu sem annt er um íslenska menningu, en hefur aldrei vanist tölvuskriftum. Því fólki fer þó fækkandi og mikill fjöldi manna hefur fjárfest í heimilistölvu og kann að nota hana. En ekki nægir að eiga tölvu til að skrifa ráðherranum, heldur þarf einnig að festa kaup á viðbótarhlut sem kallaður er mótald og hann kostar einhverja tugi þúsunda. Þetta er nauðsynlegt að menn viti sem áhrif vilja hafa á mennta- og menningarmálastefnu ráðherrans.
Ekki er að efa að öll ríkisstjórnin á eftir að fara að dæmi menntamálaráðherrans, svo og Alþingi allt, og losa sig þannig við sauðsvartan almúgann sem vílar ekki fyrir sér að trufla þingmenn og ráðherra í tíma og ótíma með ólíklegasta kvabbi og hafa skoðanir á öllum málum. Það er dagljóst að kraftar þingmanna duga miklu betur ef þeir þurfa aldrei að sjá kjósendur sína í eigin persónu sína eða eyða tíma sínum í að hlusta á rausið í þeim en geta þess í stað einbeitt sér við að „leitast við að svara“ bréfum. Milliliðalaus samskipti manna er það sem koma skal.“
Já, þannig skrifaði þingamaður um tölvusamskipti fyrir 17 árum. Þá voru hvorki Facebook né Twitter komin til sögunnar sem gera mönnum kleift að senda boð hvaðan sem er úr síma eða tölvu. Arftökum Guðrúnar Helgadóttur á þingi er nóg boðið, noti þingmenn þessa tækni til að lýsa skoðun sinni af nefndarfundi.
Þingmenn hafa orðið að laga sig að byltingunni á sviði upplýsingatækni. Vitlausasta leiðin til þess er að leggja stein í augu [hér á auðvitað að standa götu en ekki augu - en ég leyfi þessu að haldast þar sem mér er sagt að túlka megi þetta sem stílbragð með vísan til orða sem falla í ræðustól alþingis] málfrelsisins enda sé ekki brotið á neinum með að nota það. Gerði Vigdís Hauksdóttir það með því að segja skoðun sína á því sem hún heyrði á nefndarfundi? Að sjálfsögðu ekki, til þess eru fundirnir að auðvelda þingmönnum að mynda sér skoðun.
Ég svaraði Guðrúnu Helgadóttur í grein í Morgunblaðinu 13. maí 1995 og má lesa hana hér.