Föstudagur 30. 03. 12.
Það er í genum þeirra feðga Reynis og Jóns Trausta ritstjóra DV að jagast í mér. Nú ritar Jón Trausti leiðara þar sem hann býsnast yfir því að alþingi hafi veitt Evrópuvaktinni 4,5 milljónir króna í styrk til að stuðla að umræðum um ESB og Ísland.
Enginn íslenskur fjölmiðill hefur fjallað meira um ESB-mál frá því að Evrópuvaktin hóf göngu sína fyrir tæpum tveimur árum. Þegar auglýst var eftir umsóknum árið 2011 sótti Evrópuvaktin, sem er skráð fyrirtæki, um styrk og fékk hann. Já,Ísland, félagsskapur ESB-aðildarsinna fékk 13,5 m. kr. og Heimssýn 9 m. kr., en Evrópuvaktin 4,5 m. kr. Enginn ræðir þó um annað en styrkinn til Evrópuvaktarinnar. Er stórundarlegt hve lengi menn geta býsnast á þessu.
Jón Trausti reisti leiðara sinn upphaflega á því að ESB hefði veitt þennan styrk en leiðrétti þá villu síðar án þess að það hefði áhrif á dylgjurnar í leiðaranum sem urðu algjör markleysa eftir að villan hafði verið leiðrétt.
Teitur Atlason, ofurbloggari DV, hefur varið allri vikunni til að eltast við mig og Evrópuvaktina vegna þessa styrks. Hann fór villur vega eins og Jón Trausti og taldi hann nema 7 m. kr. auk þess sem um óútfylltan tékka alþingis til okkar Styrmis Gunnarssonar hefði verið að ræða.
Bæði fjárhæðin og fullyrðingin um „óútfyllta tékkann“ voru röng hjá Teiti. Þá trúir hann því ekki að ég hafi sent alþingi skrá yfir 40 viðmælendur mína í ferð til Brussel og Berlínar 11. október til 11. nóvember 2011. Teitur hefur af innsæi sínu komist að þeirri niðurstöðu að ég hafi hitt sex manns. Ég fékk í dag vitneskju um að Teitur hefði sent beiðni til alþingis og krafist þess í nafni upplýsingalaga að fá að sjá listann yfir viðmælendur mína. Ég vona að alþingi svari honum sem fyrst og afhendi skýrsluna frá Evrópuvaktinni svo að þessum ósannindum Teits ljúki.
Ritstörfin sem DV-feðgarnir og Teitur stunda eiga ekkert skylt blaðamennsku eða heiðarleg og opin skoðanaskipti. Þau einkennast af uppspuna og dylgjum. Skrif þeirra eru sjúkdómseinkenni eftir-hrunsáranna og bera keim af einelti sem verður sífellt augljósara um leið og höfundarnir líkjast meira nátttröllum en þátttakendum í samtali líðandi stundar.