Mánudagur 26. 03. 12
Gísli Baldvinsson, bloggari Samfylkingarinnar á Akureyri, verður sífellt vondaufari um velgengni flokks síns og baráttumálsins mikla um aðild að ESB sem átti að verða lokið sumarið 2010 að mati sérfræðingsins Baldurs Þórhallssonar sjá hér.
Gísli er tekinn til við að búa sig undir kosningar með ESB-málið að leiðarljósi. Hann veðjar á að Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur ályktað gegn aðild að ESB, styðji að lokum ESB-stefnu Samfylkingarinnar. Þetta er enn eitt dæmið um óraunsæi ESB-aðildarsinnanna í Samfylkingunni. Nú vilja þeir gefa VG upp á bátinn og efna til ófriðar innan Sjálfstæðisflokksins til að ná markmiði sínu.
Gísli lifir í þessari von: „En nú skal vona að Björn Bjarnason sé fortíð en Þorgerður Katrín eigi sér framtíð. Öllum er auðvitað ljóst að lokaáfanganum verður ekki náð nema með stuðningi Sjálfstæðisflokksins.“
Gísli veðjar með öðrum orðum á að Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur takist að leiða þingflokkinn gegn ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins frá því í nóvember 2011 þar sem mælt er fyrir um að hlé verði gert á ESB-viðræðunum og þær ekki hafnar að nýju fyrr en að heimild hafi fengist til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu. Gísla verður ekki að ósk sinni. Hvers vegna í ósköpunum skyldi sjálfstæðismönnum detta í hug að hefja samstarf við Samfylkinguna til að Ísland verði aðili að ESB?
Ruglið vegna hinnar vanhugsuðu ESB-umsóknar magnast eftir því sem málið er lengur í höndum Samfylkingarinnar. Össur hefur klúðrað málinu frá sjónarhóli stuðningsmanna sinna, hann á það ekki inni hjá sjálfstæðismönnum að þeir bjargi honum úr klípunni. Heimtufrekja samfylkingarfólks er hins vegar takmarkalaus. Það sveik hins vegar Sjálfstæðisflokkinn á örlagastundu í janúar 2009.