28.3.2012 23:00

Miðvikudagur 28. 03. 12

Í dag birti Evrópuvaktin frétt um skiptingu styrkja sem alþingi veitti á síðasta ári til að ýta undir umræður með og á móti um Evrópusambandið. Þar kemur fram að Já, Ísland, samtök aðildarsinna, fengu 13,5 m. kr., Heimssýn 9 m. kr. og Evrópuvaktin 4,5 m.kr. Ég hafði samband við skrifstofu alþingis til að fá þessar tölur á hreint vegna þess að mér blöskraði hvernig Teitur Atlason, bloggari í Gautaborg og ESB-aðildarsinni, ritaði um málið í bloggi sínu þar sem hann hélt áfram að ráðast á mig og sakaði okkur Styrmi Gunnarsson auk þess um að hafa fengið 7 m.kr. óútfylltan tékka frá alþingi sem við hefðum ráðstafað að eigin vild.

Alþingi setti ströng skilyrði til styrkþega, meðal annars um eftirlit með ráðstöfun fjárins, og hefur Evrópuvaktin uppfyllt öll þau skilyrði innan þeirra tímamarka sem sett hafa verið. Skrif Teits hafa hins vegar vakið þær ranghugmyndir meðal lesenda hans að um algjört aðhaldsleysi af hálfu alþingis sé að ræða. Loks telur hann sér fært að fara í saumana á því sem ég hef skrifað til að sanna að ég hafi ekki rætt við nema sex manns í mánaðarferð minni til Brussel, Berlínar og Frankfurt 11. október til 11. nóvember 2011. Listi yfir um 40 viðmælendur hefur verið kynntur alþingi.

Það er með nokkrum ólíkindum en lærdómsríkt að lesa þessi skrif Teits og viðbrögðin við þeim hjá lesendahópi síðu hans. Uppdiktaðar kenningar verða að stórasannleika sem vekur hneykslan og leiðir til ónota og reiðilesturs yfir mönnum sem hafa í einu og öllu farið að settum reglum. Þetta er svo sem í ætt við margt annað í hinum brengluðu umræðum sem setja sterkan svip á þjóðlífið. Hitt er síðan eftirtektarvert að hvorki hjá Teiti né nokkrum öðrum ESB-aðildarsinna er gerð minnsta tilraun til að skýra hvernig sá sem fékk hæsta styrkinn, Já, Ísland, notaði hann.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um stjórnlagaumræðurnar á alþingi. Segja má að stjórnarisinnar hafi verið teknir í bólinu vegna málsins í orðsins fyllstu merkingu aðfaranótt miðvikudags 28. mars þegar svo margir þeirra sváfu á sínu græna eyra heima að ekki var unnt að afgreiða það til nefndar. Að kenna það við klæki að þingmenn noti rétt sinn samkvæmt þingsköpum er til marks um rökþrot.