Föstudagur 02. 03. 12
Gunnar Þ. Andersen, forstöðumaður fjármálaeftirlitsins, er rekinn 1. mars og kærður til lögreglu. Hann fer sjálfur 2. mars til skýrslugjafar hjá lögreglu. Lögmaður hans segir sig frá honum 2. mars með yfirlýsingu um að nýjar upplýsingar sem komið hafi fram í uppsagnarbréfi til Gunnars 1. mars og skýrst hafi með ákveðnum hætti að kvöldi sama dags, hafi komið sér algjörlega í opna skjöldu og séu til þess fallnar að setja málið í nýjan farveg. Stjórn fjármálaeftirlitsins hafði glímt við að losna við Gunnar og boðið honum starfslokasamning sem hann hafnað. Þá fær hún í hendur upplýsingar um að Gunnar hafi á ólögmætan hátt fengið starfsmann Landsbanka Íslands til að afla gagna sem snerta Guðlaug Þór Þórðarson alþingismann í bankanum.
DV birti 1. mars frétt um að eignarhaldsfélag í eigu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar hafi fengið greiddar tæpar 33 milljónir króna frá Landsbanka Íslands í júní 2003. Greiðslan hafi verið vegna sölu Guðlaugs Þórs á umboði fyrir tryggingamiðlun svissneska tryggingafélagsins Swiss Life sem hann seldi til Landsbankans á þessum tíma. Guðlaugur Þór segir við DV að hann hafi keypt tryggingamiðlunina af Búnaðarbankanum, þar sem hann starfaði, með láni frá bankanum og selt hana skömmu síðar til Landsbankans.
Í hádegi 2. mars leiðréttir RÚV í fréttatíma fyrri frétt sína um að DV vitni í skjöl sem Gunnar Þ. Andersen hafi fengið í Landsbankanum. Ritstjórn DV hafi fullvissað fréttastofu RÚV um að svo væri ekki. Síðdegis 2. mars segir á vefsíðunni Pressunni:
„Samkvæmt upplýsingum Pressunnar óskaði Gunnar eftir því við starfsmann [Lands]bankans að hann fengi upplýsingar um fjármál Guðlaugs Þórs og fengi afhent. Starfsmaður bankans nálgaðist þær upplýsingar og afhenti en þegar starfsmenn bankans sáu þær á forsíðu DV höfðu forsvarsmenn Landsbankans samband við stjórn FME og upplýstu hvernig þær væru tilkomnar. Þar með var ljóst að mati bæði Landsbankamann og stjórnarmanna FME að Gunnar hefði sótt upplýsingar gagngert til að leka þeim í DV. Blaðið hefur síðustu vikur varið Gunnar af mikilli hörku. Umræddur bankamaður í Landsbankanum hefur verið settur í leyfi vegna málsins.“
Sjá framhald með því að ýta á Lesa meira hér fyrir neðan.
Fréttin um að stríð væri milli stjórnar fjármálaeftirlitsins og forstöðumannsins birtist fyrst fyrir tveimur vikum. Þá greip Þorvaldur Gylfason prófessor til þess ráðs að skrifa Evu Joly, forsetaframbjóðanda í Frakklandi, opið bréf um málið.
Hið einkennilega í málinu er að enginn fjölmiðill virðist geta komist að því hvað í raun sé að gerast. Gunnar Þ. segir að þetta megi allt rekja til samsæris gegn sér sem kynnt hafi verið til sögunnar í Kastljósi 17. nóvember 2011. Hvar kemur Guðlaugur Þór Þórðarson við sögu þessa samsæris? Hvers vegna var farið að róta í reikningum hans innan Landsbankans? Í tilkynningu bankans segir: „Þegar að grunur kom upp um miðlun trúnaðargagna þá sendi bankinn tilkynningu um málið til Fjármálaeftirlitsins.“
Fréttir ljósvakamiðla af þessu máli öllu í dag bera með sér að þeir hafi ekki burði til að gera annað en birta efni opinberra yfirlýsinga. Í sjónvarpsfréttum RÚV var að vísu sagt að fréttamönnum bærist mikið af nafnlausum ábendingum. Að þetta væri eini sjálfstæði fréttapunkturinn vegna þessa stórundarlega máls stafar aðeins af tvennu: 1) RÚV hefur ekki burði til að rannsaka málið og ekki vilja til að svara ásökuninni um samsæri í Kastljósi 17. nóvember. 2) Með því að stefna fréttamönnum og sauma að þeim á annan hátt hefur tekist að ná öllu biti úr fréttum um mál af þessu tagi.
Klukkan 20.00 föstudaginn 2. mars birti DV á vefsíðu sinni þar sem segir:
„Ingi F. Vilhjálmsson, fréttastjóri DV, var síðdegis í dag yfirheyrður vegna rannsóknar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í máli Gunnars Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Ingi Freyr er með réttarstöðu sakbornings í málinu en hann liggur undir grun að hafa brotið bankaleynd með því að birta trúnaðarupplýsingar um fjárhagsmálefni Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Líkt og komið hefur fram snýst rannsóknin á máli Gunnars um það, í hans tilfelli, hvort hann hafi aflað sér upplýsinga um fjárhagsmálefni Guðlaugs Þórs með ólögmætum hætti í gegnum starfsmann Landsbankans.
Rannsóknarefnið í tilfelli Gunnars og Inga Freys er því ekki það sama. Gunnari var vikið frá störfum sem forstjóra Fjármálaeftirlitsins í gærmorgun og var kærður til lögreglunnar fyrir þessi meintu brot.
Í yfirheyrslunni svaraði Ingi spurningum lögreglunnar um umrædda frétt um Guðlaug Þór. Meðal þess sem Ingi greindi frá var að gögnin sem lágu til grundvallar fréttinni hefðu borist til blaðsins í nafnlausu umslagi síðastliðinn föstudag.“