4.3.2012 22:51

Sunnudagur 04. 03. 12

Skálholtskvartettinn lék í Hlöðunni að Kvoslæk í dag. Veðrið var fallegt eins og jafnan þegar Rut hefur efnt þar til tónleika.

Ólafur Ragnar Grímsson gaf pólitískar ástæður fyrir því að hann ætlar að bjóða sig fram í fimmta sinn sem forseta. Tvær meginástæður ráða ákvörðun hans: stjórnlagabreytingar og aðildarviðræður við ESB. Í báðum tilvikum er hann andvígur stefnu ríkisstjórnarinnar. Stuðningsmenn hennar bregðast einnig ókvæða við ákvörðun hans. Þeir hljóta að leita logandi ljósi að mótframbjóðanda, líklega hafa þeir augastað á konu. Hún verður að taka afstöðu með stefnu ríkisstjórnarinnar og verða í stakk búin til að etja kapps við Ólaf Ragnar um þessi mál.

Við setningu alþingis haustið 2011 hakkaði Ólafur Ragnar tillögur stjórnlagaráðs í sig. Þær hafa ekkert breyst í meðförum þingsins og þeim hefur nú verið skotið aftur til stjórnlagaráðs í skjóli þingsályktunartillögu sem Þór Saari flutti á fyrstu dögum október 2011. Þór fékk samþykkt eigin tillögu í gjörbreyttri mynd sem dúsu fyrir stuðning Hreyfingarinnar við helstu óhæfuverk ríkisstjórnarinnar eins og síðast sannaðist þegar Þór og félagar tóku þátt í því að vísa frá tillögunni um afturköllun landsdómsmálsins.

Ólafur Ragnar segist líklega ekki sitja út kjörtímabilið, hann telur greinilega að með falli ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í þingkosningunum í apríl 2013 ljúki þeirri aðför að stjórnarskránni og fullveldinu sem Jóhanna hefur staðið fyrir frá árinu 2009.