8.3.2012 23:12

Fimmtudagur 08. 03. 12

Í hádeginu í dag efndi Varðberg til fundar í ráðstefnusal Þjóðminjasafns þar sem Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, og Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu,  ræddu um skipulagða glæpastarfsemi og viðbrögð lögreglu við henni.

Fundurinn var vel sóttur og kom mörgum örugglega á óvart að kynnast því sem ræðumenn höfðu fram að færa því að ekki er algengt að lögregla komi fram á fundum sem þessum. Löggæsla er ekki lengur takmörkuð af landamærum ríkis heldur er hún alþjóðlegt samstarfsefni ef lögregla á að geta haldið í við þróunina meðal afbrotamanna.

Þeir sem halda að allan vanda við íslenska löggæslu megi uppræta með því að ganga úr Schengen og taka upp landamæravörslu hefðu átt að sitja þennan fund og hlusta á Jón F. Bjartmarz. Engum fundarmanni datt í hug að spyrja hvort ástæða væri til að taka þátt í Schengen-samstarfinu að loknu erindi hans. Lögreglan mundi einfaldlega einangrast verulega við brottför úr Schengen og vegabréfaskoðun fyllti það skarð alls ekki.

Karl Steinar lagði áherslu á að starfsumhverfi íslenskrar lögreglu yrði að vera sambærilegt við það sem tíðkast í öðrum löndum, án þess vildi lögregla annarra landa ekki starfa með hinni íslensku. Í því sambandi nefndi hann til dæmis heimildir til gæsluvarðhalds og afhendingu á gögnum til verjenda og sakborninga. Hér hafa refsiréttarfræðingar smíðað sértækar íslenskar reglur um þessi atriði og þeim hefur tekist að sannfæra þingmenn um gildi þeirra.

Ef marka má yfirlýsingar alþingismanna eru þeir áhugasamir um aðgerðir til að auðvelda lögreglu að takast á við skipulagða glæpahópa. Þeir ættu að sýna það í verki með því að taka tillit til óska lögreglunnar um inntak lagaákvæða þegar skýr rök eru að baki óskunum.

Andri Karl blaðamaður á mbl.is hefur skrifað nokkrar fréttir af fundinum eins og lesa má hér.