Fimmtudagur 01. 03. 12
Þessi vika hefur verið söguleg. Alþingismenn vísuðu í dag frá tillögu um að kalla aftur ákæru á hendur Geir H. Haarde með þeim furðulegu rökum að alþingi ætti ekki að hafa afskipti af dómsmálum – þingið hefur þó stofnað til þessara málaferla og þingmenn hafa hlustað á rök um að ákæra þess sé haldin miklum lögfræðilegum ágöllum. Málaferlin eru einfaldlega pólitísk. Þór Saari varð sér enn einu sinni til skammar í ræðustól þingsins.
Gunnar Þ. Andersen var í dag rekinn úr forstjórastarfi fjármálaeftirlitsins. Lokahnykkurinn er sagður tengjast gögnum varðandi Guðlaug Þ. Þórðarson, þingmann Sjálfstæðisflokksins. Gunnar Þ. hafi látið sækja þau í Landsbanka Íslands í vikunni til að lesa heima hjá sér. DV birti forsíðufrétt um fjármálagjörninga Guðlaugs Þórs í vikunni, hann segist ekki vita hvaðan á sig stendur veðrið. Gunnar Þ. neitar að hafa séð skjöl varðandi Guðlaug Þór. Nú þurfa rannsóknarblaðamenn að segja okkur hvað þarna er á ferðinni.
Þriðja stórmálið tengist Ólafi Ragnari Grímssyni sem sagði á Bessastöðum mánudaginn 27. febrúar að hann þyrfti svigrúm til að átta sig á því hvort hann ætti að hætta við að hætta sem forseti Íslands. Þá féllu meðal annars þessi gullkorn sem Magnús Geir Eyjólfsson, ritstjóri Eyjunnar, skráði:
„Mín heitasta ósk er sú að ég hefði verið í sömu sporum og fyrirrennarar mínir, að öll staða mála í landinu væri með þeim hætti og með þeim brag að lítið haggaðist, hver sem væri hér á Bessastöðum. En það eru því miður örlög mín og þjóðarinnar að þetta er ekki slíkur tími. […]
Það eru fjölmörg heillandi verkefni og mikilvæg, ekki bara fyrir Ísland, heldur fyrir mannkynið allt, sem kalla eftir að ég komi til liðs við og taki þátt í á alþjóðlegum vettvangi.“
Hvort skyldi Ólafur Ragnar velja litla Ísland eða mannkynið allt?