6.3.2012 22:00

Þriðjudagur 06. 03. 12

Í dag kvað Jón Finnbjörnsson upp dóm í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gegn mér vegna ritvillu í bók minni um Baugsmálið. Dómurinn kom mér á óvart eins og lesa má hér.

Viðbrögðin sem ég hef fengið hafa öll nema eitt verið á þann veg að menn eiga erfitt með að átta sig á röksemdarfærslunni; hvort ummæli lifi af hlutlægum ástæðum þótt þau séu dregin til baka og þess vegna sé réttlætanlegt að refsa þeim sem setti þau fram upphaflega þótt ekki hafi verið um ásetning að ræða. Þá sé Jón Ásgeir greinilega ekki opinber persóna eins og aðrir sem hafi mátt þola höfnun dómara á kröfum sínum í meiðyrðamálum með vísan til stöðu sinnar í þjóðfélaginu.

Þessum eftirmála Baugsmálsins er ekki lokið frekar en ýmsu öðru sem tengist Jóni Ásgeiri árunum fyrir hrun. Fyrir mér vakti alls ekki við ritun bókar minnar að draga athygli að refsingunni sem Jón Ásgeir hlaut í hæstarétti. Með málshöfðun sinni hefur hann dregið athyglina rækilega að því. Hvað sem afstöðu dómarans líður er örugglega álitamál í huga almennings  hvort sé alvarlegra fyrir umsvifamikinn fésýslumann að hljóta dóm fyrir fjárdrátt eða meiriháttar bókhaldsbrot. Samkvæmt lögum er refsiramminn hinn sami fyrir brotin.

Niðurstaða dómarans er þess eðlis að óhjákvæmilegt er að fá niðurstöðu hæstaréttar um hvort hún sé rétt og þess vegna hefur Jón Magnússon hrl., lögmaður minn, ákveðið í samráði við mig að áfrýja málinu.