9.3.2012 22:41

Föstudagur 09. 03. 12

Á dögunum velti einhver fyrir sér eftir að ég hafði nefnt myndina Borgríki hér á síðunni og sagt hana endurspegla íslenskan veruleika hvort ég mundi kannski segja hið sama um myndina Svartur á leik. Nú þegar ég hef séð hana segi ég það enda er þar meðal annars vísað beint til afbrota sem framin voru á þeim tíma sem sagan gerist. Svartur á leik er enn eitt dæmið um eftirminnilegan árangur í íslenskri kvikmyndagerð – persónusköpunin var sterk í einmanaleik sínum, tilgangsleysi og grimmd; leikurinn stenst ströngustu kröfur; stundum hefði talsetningin mátt vera skýrari. Handritið eftir Stefán Mána skapar myndinni öryggi og festu.

Mér var enn hugsað til þess sem við heyrðum á Varðbergsfundinum í gær um skipulagða glæpastarfsemi og hvernig hún grefur um sig á róttækari hátt en áður. Hún er sýnileg í mótórhjólagengjum en líklega enn alvarlegri á öðrum sviðum. Mótórhjólagengin gætu verið toppurinn á ísjakanum.

Lesendur síðu minnar vita að um nokkurra ára skeið hef ég verið með Gunnari Eyjólfssyni leikara á qi gong kyrrðardögum i Skálholti. Hef ég fengið að sinna þessu gefandi verkefni án þess að sæta áreiti vegna þess. Nú bregður hins vegar svo við að Reynir Traustason ritstjóri á DV  sér ástæðu til þess að grípa til hefðbundinnar neikvæðni í minn garð vegna þessara kyrrðardaga.

Reynir gerir þetta í anda meistara síns Jóns Ásgeirs Jóhannessonar Baugsmanns. Um nokkurra ára bil var Reynir handlangari hans á Baugsmiðlunum og tekur nú upp þráðinn gegn mér í tilefni af því að ég var dæmdur til að greiða 900.000 krónur vegna leiðréttrar ritvillu í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi þar sem þeir Jón Ásgeir og Reynir koma  við sögu. Reynir hefur meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að bæturnar sem mér er gert að greiða Jóni Ásgeiri séu of lágar til að ég geti áfrýjað málinu hæstaréttar. Reynir hefur vafalaust viljað gleðja Jón Ásgeir með þessari uppgötvun sinni – að sjálfsögðu get ég áfrýjað málinu. Raunar ættu blaðamenn og rithöfundar að fagna því að leitað sér álits hæstaréttar hvort það sé lagaregla hér á landi að unnt sé að dæma menn til að greiða stórfé vegna ritvillu sem þeir leiðrétta með afsökun.

Ég er hættur að kippa mér upp við títuprjóna Reynis, undrast mest að hann telji sér til framdráttar að vera stöðugt á þessu lága plani, líklega er hann þó einmitt ráðinn til þess.