13.3.2012 21:05

Þriðjudagur 13. 03. 12

Í dag skrifaði ég pistil þar sem ég leit á frönsku forsetakosningarnar og ESB-umræður hér og þar. Má lesa pistilinn hér.

Á árinu 1995 þegar ég tók til að nota tölvuna til að miðla upplýsingum um störf mín sem stjórnmálamanns og síðar sem ráðherra vakti það undrun og jafnvel hneykslan. Guðrún Helgadóttir, þáverandi þingmaður Alþýðubandalagsins, var í hópi þeirra sem gagnrýndi mig fyrir að leyfa mér að ætla að nota tölvu til að hafa samband við kjósendur.  Ég minnist þess einnig að á fyrstu árum mínum í þinginu sagði ég opinberlega frá því sem gerðist á fundi þar sem rætt var um dagskrá þingsins af því að mér blöskraði að ekki var við það staðið. Varð þessi upplýsingamiðlun mín til þess að ráðist var á mig í upphafi þingfundar fyrir að brjóta reglur og jafnvel þingsköp.

Fjarskiptum og tölvutækni hefur fleygt fram síðan þetta var og nú rjúka þingmenn upp á nef sér og skamma þingmann fyrir að sitja á nefndarfundi og segja frá því  sem gerist á fundinum með því að senda efni inn á fésbókina. Var þingmaðurinn, Vigdís Hauksdóttir Framsóknarflokki, tekin á beinið í upphafi þingfundar og gekk forseti svo langt að ætla að neita henni að verja hendur sínar. Þingmaður hlýtur að mega segja frá því sem hann telur að hafi komið fram á þingnefndarfundi þótt hann vitni ekki beint í þann sem miðlaði vitneskjunni. Hvers vegna skyldi bannað að gera það á meðan fundur er haldinn?

Þegar bannað var að senda beint í hljóð og mynd frá landsdómi gripu fjölmiðlamenn til þess ráðs að tísta (senda beint út á samskiptasíðuna Twitter) og lýsa því sem gerðist. Forseti dómsins bannaði ekki þessa starfsemi og mér heyrist í kynningu á Spegli RÚV að sérfræðingur hans í hruninu, Sigrún Davíðsdóttir, fari yfir tístið í New York og gefi síðan álit sitt á því sem gerst hefur í Þjóðmenningarhúsinu í símtali við umsjónarmann Spegilsins.