16.3.2012 22:00

Föstudagur 16. 03. 12

Utanríkisráðuneytið hefur birt málsvörn sína í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum á 75 bls. á vefsíðu utanríkisráðuneytisins eins og sjá má hér.

Af því sem Cristian Dan Preda, formaður Íslandsnefndar utanríkismálanefndar ESB-þingsins, segir í pistli sem birtur er á Evrópuvaktinni í dag má álykta að innan þingsins geri menn sér vonir um að Íslendingar semji sig frá málinu fyrir dómstólnum, sjá hér.

Dan Preda rökstyður ekki þessa skoðun en í ályktun sem hann samdi og samþykkt var á ESB-þinginu 14. mars er litið fram hjá Icesave-málinu sem vandamáli í ESB-aðildarviðræðum Íslands þar sem það sé nú fyrir EFTA-dómstólnum. Breskur þingmaður greiddi atkvæði á móti ályktuninni vegna Icesave-málsins.

Allt er þetta ruglingslegt en ESB-þingmenn og fleiri innan ESB hafa áhuga á málaferlunum í EFTA-dómstólnum. Komist hann að þeirri niðurstöðu að ríkissjóðir EES-ríkja séu ábyrgir komi til bankahruns mun það valda mörgum vandræðum nú á tímum niðurskurðar á ríkisútgjöldum.