Þriðjudagur 20. 03. 12
Ingvi Hrafn Jónsson ræddi við Stefán Hauk Jóhannesson, formann ESB-viðræðunefndar Íslands, í þætti sínum Hrafnaþingi í kvöld.
Stefán Haukur keppist að sjálfsögðu við að halda hlutleysi sínu. Það birtist meðal annars í samræðum þeirra um gjaldmiðlamálin. Ingvi Hrafn fór orðum um vandræðin og upplausnina á evru-svæðinu. Stefán Haukur sagði hlutverk sitt og samstarfsmanna sinna að fara að ályktun alþingis og áliti meirihluta utanríkismálanefndar þingsins sem miðaði að því að Ísland yrði hluti af gjaldmiðlasamstarfi ESB undir merkjum ERM II. Lét hann eins og sama hvað gerðist innan ESB að þessu skyldi unnið.
Þessi faglega eða staðnaða afstaða formanns viðræðunefndarinnar er til marks um blindgötu ESB-viðræðnanna. Það er sama hvað gerist hér innan lands eða innan ESB, áfram skal haldið eins og ekkert hafi í skorist. Skynsamlegast er auðvita að staldra við og halda ekki af stað á ný nema með umboði frá þjóðinni.
Í dag bárust fréttir um að sjávarútvegsráðherra Íra ætlaði að beita sér gegn því að hafnar yrðu viðræður um sjávarútvegsmál við Íslendinga nema samningar næðust í makríldeilunni. Steingrímur J. brást fyrst þannig við ummælunum á alþingi að af þeim gæti ekki leitt annað en uppnám í ESB-viðræðunum. Í seinna svari sínu brá hann hins vegar á það ráð að veika gildi orða ráðherrans með því að segja þau „til heimabrúks“.
Málflutningur Stefáns Hauks hljómar oft eins og honum sé meira í mun að skýra afstöðu ESB og setja hana í vinsamlegt ljós en skerpa afstöðu Íslands. Hann sagði til dæmis að vissulega kæmu ákveðin sjónarmið í sjávarútvegsmálum fram í áliti meirihluta utanríkismálanefndar en nú væri unnið að samningsmarkmiðunum undir forystu viðræðunefndarinnar. Í þessu felst að viðræðunefndin mátar skilyrði Íslands inn í ramma ESB áður en þau eru kynnt Íslendingum opinberlega.