31.3.2012 22:10

Laugardagur 31. 03. 12

Hið svonefnda brjóstapúðamál hefur sett mikinn svip á fréttir undanfarnar vikur. Velferðaráðherra tók málið í sínar hendur og landlæknis. Nú hefur persónuvernd lagt mat á málið og komist að niðurstöðu á grundvelli gildandi laga. Þá segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra samkvæmt ruv.is 31. mars:

„Fyrstu viðbrögð eru náttúrulega ákveðin vonbrigði. Það er greinilegt að lagaumhverfið er ekki nógu skýrt. Hver er réttur Persónuverndar og hver er réttur landlæknis í sínu eftirlithlutverki? Þarna blandast inn stjórnarskrárvarinn réttur samkvæmt niðurstöðu Persónuverndar.“

Þetta er dularfullt svar. Hvernig getur „lagaumhverfið“, það er lögin, skort skýrleika úr því að persónuvernd hefur komist að niðurstöðu. Hún fer að lögum. Þegar hæstiréttur ógilti stjórnlagaþingskosningarnar ákvað ríkisstjórnin að hafa ákvörðunina að engu og skipaði stjórnlagaráð. Nú segir Álfheiður Ingadóttir, formaður velferðarnefndar alþingis og þingmaður VG, með valdsmannslegum tóni að hún ætli að flytja lagafrumvarp til að hnekkja niðurstöðu persónuverndar. Það yrði eftir öðru að sett yrðu afturvirk lög til að aflétta persónuvernd.

Á sínum tíma fékk Þjóðhátíðarsjóður ítarlegar greinargerðir um hvernig bjarga ætti kútter Sigurfara þegar honum var komið fyrir á safnasvæðinu að Görðum á Akranesi. Veitti sjóðurinn styrki svo unnt væri að grípa til nauðsynlegra ráðstafana. Nú berast þær fréttir að Sigurfari sé svo illa farinn að fljótlega verði að ákveða hvort varðveita eigi skipið eða sætta sig við að það eyðileggist, það verði að byggja yfir hann til að bjarga honum. Engir fjármunir eru fyrir hendi til þess. Kútterinn hefur verið á landi síðan 1975.