Laugardagur 17. 03. 12
Sat í dag fund flokksráðs sjálfstæðismanna á 20. hæð í Turninum í Kópavogi. Hærra verður ekki komist. Í setningarræðu sinni gagnrýndi Bjarni Benediktsson flokksformaður Jóhönnu Sigurðardóttur harðlega fyrir tal hennar um krónuna eins og sjá má hér. Ólöf Nordal varaformaður sagði að fundurinn boðaði upphaf kosningabaráttu sjálfstæðismanna.
Stjórnir málefnanefnda voru kjörnar í samræmi við nýjar skipulagsreglur. Einnig 2. varaformaður og hlaut höfundur hinnar nýju tilhögunar Kristján Þór Júlíusson alþingismaður kjör í annarri umferð með 167 atkvæðum. Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn, hlaut 117 atkvæði. Hann flutti magnaðar hvatningarræður á fundinum. Kjör hans hefði breikkað flokksforystuna.
Eiríkur Jónsson ofurbloggari segir á síðu sinni 16. mars:
„Umsnúningur hefur orðið í framleiðslu á Gettu betur - þáttunum hjá Ríkissjónvarpinu.
Þar sem spyrjandinn réði öllu áður eru dómarar nú farnir að grípa fram í ótt og títt og hefta framvinduna.
Spyrillinn í Gettu betur á að ráða för - ekki dómarar í skartklæðum sem stöðugt grípa fram´í.
Áhorfendum er alveg sama um álit dómara - á hinu og þessu...!“
Ég tek undir þessi orð Eiríks. Dómarar eiga að sitja baksviðs eins og í Útsvari. Spenna dettur niður sé stjórnin ekki markviss. Þegar dómarar grípa fram fyrir hendur spyrjanda til að láta ljós sitt skína eða flissa er spurningaþáttur á villigötum.