Mánudagur 19. 03. 12
Vef-Þjóðviljinn birtir i dag mynd sem segir meira en mörg orð um hverjir báru pólitíska ábyrgð á bankamálum á Íslandi síðustu áratugina fyrir hrun þeirra. Í landsdómsmálinu hefur verið minnt á að ekki er um sameiginlega ábyrgð ráðherra að ræða heldur ber hver þeirra ábyrgð á sínu sviði. Ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald. Um tíma við upphaf ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar var rætt um að breyta ætti ríkisstjórninni í fjölskipað stjórnvald. Er það lengur á dagskrá?
Eins og sjá má á mynd Vef-Þjóðviljans hafa sjálfstæðismenn ekki setið í embætti bankamálaráðherra áratugum saman eða síðan Matthías Á Mathiesen sat þar í skamman tíma á síðari hluta níunda áratugarins. Þrátt fyrir þetta er látið eins og sjálfstæðismenn hafi ráðið öllu, stóru og smáu, sem leiddi til einkavæðingar bankanna og hruns þeirra.
Ástæðan fyrir því að sjálfstæðismenn stjórnuðu ekki viðskipta- og bankamálaráðuneytinu var sú að samstarfsmenn þeirra í ríkisstjórn töldu að með stjórn á ráðuneytinu gætu þeir styrkt stöðu sína meðal þeirra, kaupsýslumanna og síðar fésýslumanna, sem litið var á sem hefðbundna stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði frá því fyrir landsdómi að Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, hefði hringt í sig á sjúkrabeð í New York og sagt að Samfylkingin ætti ekki fulltrúa á fundi um Glitni í Seðlabanka Íslands. Samfylkingin ákvað að senda Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra á vettvang en ekki Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra.
Að Gestur skuli hafa hringt í Ingibjörgu Sólrúnu, formann Samfylkingarinnar, fyrir Jón Ásgeir segir í raun allt sem segja þarf um hvers vegna samstarfsmenn Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn töldu svo miklu skipta að hafa viðskipta- og bankaráðuneytið í sínum höndum.