Mánudagur 05. 03. 12
Landsdómur kemur saman í fyrsta og eina skipti í sögunni og menn hafa ekki einu sinni hugmyndaflug til að búa þannig um þinghaldið að uppfyllt sé frumkröfum nútímalegrar fjölmiðlunar. Að láta sér detta í hug að breyta lestrarsalnum gamla í Þjóðmenningarhúsinu í dómsal fyrir réttarhöldin sjálf er fráleitt.
Það er alls ekki unnt að búast við því að unnt sé að flytja fullnægjandi fréttir í endursögn af því sem gerist í þessum flóknu réttarhöldum þar sem fjallað er um málefni sem snerta ekki aðeins þann sem er að ófyrirsynju ákærður heldur alla þjóðina enda eru málaferlin pólitísk eins og sannaðist enn á alþingi í síðustu viku. Þetta eru ekki aðeins málaferli sem eiga erindi við íslensku þjóðina heldur vekja þau athygli langt út fyrir landsteinana.
Réttarhöldin snúast um hvort hinn ákærði hafi séð hluti fyrir eða staðið rétt að formsatriðum í aðdraganda bankahrunsins. Þeir sem standa að umgjörð réttarhaldanna hafa fallið á prófinu. Þeir eiga að leigja sal í Háskólabíói, koma fyrir upptökuvélum og hljóðnemum og gefa allri þjóðinni tækifæri til að fylgjast með þessum sögulega viðburði í réttar- og stjórnmálasögunni.
Þegar ég les lýsingar á því sem leiddi til uppsagnar Gunnars Þ. Andersens dettur mér í hug saga Jerzys Kosinkis Being There um einfalda garðyrkjumanninn Chance, sem Peter Sellers lék í kvikmynd eftir sögunni.