21.3.2012 18:05

Miðvikudagur 21. 03. 2012

Í dag ræddi ég við Stefán Mána rithöfund í þætti mínum á ÍNN. Hann er höfundur bókarinnar Svartur á leik en samnefnd kvikmynd slær aðsóknarmet í kvikmyndahúsum landsins um þessar mundir. Við ræddum bókina og myndina en auk þess nýjustu bók Stefáns Feigð sem er ekki síður mögnuð en Svartur á leik. Samtal okkar er dagskrá klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun, fimmtudag.

Enn sannaðist á þingi í dag að Hreyfingin er gengin í lið með ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmenn flokksins studdu hina fráleitu tillögu að stjórnarskrármálið skyldi afgreitt með afbrigðum.

Jóhanna er á sama stigi nú og fyrir kosningar 2009 þegar hún réð ekki við ofsa sinn í stjórnarskrármálinu og tapaði umræðu um það á þingi. Þeir sem læra ekki af sögunni lenda í ógöngum að óþörfu. Er með ólíkindum að þingmenn ríkisstjórnarinnar láti Jóhönnu leiða sig út í foraðið að nýju, málstaðurinn er meira að segja enn verri en hann var fyrir kosningar 2009.