Fimmtudagur 15. 03. 12
Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari alþingis, flutti málið gegn Geir H. Haarde í landsdómsmálinu í dag. Á ruv.is má lesa:
„Sigríður sagði að Geir hefði alveg vitað hvernig hann ætti að lesa úr þessu riti, enda væri hann hagfræðimenntaður og hefði meðal annars starfað í Seðlabankanum um árabil. Sigríður sagði að menn hefðu skýlt sér á bak við að í riti Seðlabankans virtist all vera í góðu lagi. Það væri fráleitt. Seðlabankinn hefði sett þetta fram eins skýrt og hægt hefði verið.“
Þessi orð vekja tvær athugasemdir. Í fyrsta lagi að líklega verður aldrei unnt að stefna Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir landsdóm, hún er ekki hagfræðimenntuð, hefur ekki starfað í seðlabankanum og hélt hún væri að lesa Fjármálatíðindi seðlabankans á árinu 2008 þegar útgáfu þeirra hafði verið hætt. Í öðru lagi stangast fullyrðingar saksóknarans á við kenningarnar um að seðlabankinn hafi ekkert aðhafst undir stjórn Davíðs Oddssonar.
Á ruv.is segir einnig:
„Sigríður fór í gegnum ríkisstjórnarfundi sem haldnir voru árið 2008, fram að hruni, og sagði þá bera með sér að lítið hefði verið rætt um þá vá sem var uppi í fjármálakerfinu. Hún sagði alveg ljóst að hættan sem steðjaði að bankakerfinu og um leið íslenska ríkinu hefði verið slík að hún flokkaðist sem mikilsvert stjórnarmálefni. Þess vegna hefði verið ástæða til að halda fundi um þetta og nefndi hún sérstaklega Glitnishelgi í þessu samhengi.“
Þeir sem þekkja sögu stjórnarráðsins og þá staðreynd að um langt árabil voru engar fundargerðar skráðar í ríkisstjórn hljóta að undrast að nú sé talið refsivert þegar ekki er bókað um hvað ráðherrar ræða undir liðnum önnur mál og það jafngildi því að mál hafi ekki verið rætt. Þetta er ótrúleg grunnhyggni eða öfgafullur formalismi.
Mikilsverð stjórnarmálaefni eru rædd á ríkisstjórnarfundum hvort sem það er bókað í fundargerð eða ekki. Geir Haarde hafði samband við ráðherra um Glitnishelgina svonefndu og hafði umboð þeirra til þeirra aðgerða sem þá voru ákveðnar. Menn ættu að lesa bókina Þingræði á Íslandi til að átta sig á því hvernig samskiptum ráðherra og alþingis er háttað en gagnvart þinginu bera ráðherrar ábyrgð en ekki gagnvart landsdómi þegar um pólitískar ákvarðanir er að ræða.
Tímaritið Þjóðmál, vorhefti 2012, fyrsta hefti áttunda árangs. Ég skrifa þar umsögn um bókina Þingræði á Íslandi og tel hana skyldulesningu fyrir þá sem vilja átta sig á meginatriðum stjórnskipunar Íslands.