4.11.2014 18:00

Þriðjudagur 04 11. 14

Yf­ir­menn lög­regl­unn­ar sátu í morgun fyr­ir svör­um í stjórnskipunar- og eftirlistnefnd alþingis vegna sam­an­tekt­ar sem Geir Jón Þóris­son, fyrrv. yfirlögregluþjónn, vann um skipu­lögð mót­mæli á ár­un­um 2008-2011. Þingmenn vildu vita um upplýsingar í gagnagrunni lögreglu, hvort þar yrðu varðveittar upplýsingar um stjórnmálaskoðanir og fjölskyldutengsl einstaklinga.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði ákvörðun um efni gagnagrunnsins væri tekin af embætti ríkislögreglustjóra í samráði við persónuvernd.

Þá segir á mbl.is hún hafi einnig verið spurð hvort farið hefði verið að hvatningu Geirs Jóns um að varðveita ljósmyndir og myndbandsupptökur af mótmælunum. Vissi lögreglustjóri ekki til þess. Lög­regl­an héldi ekki gagna­grunn um mót­mæl­end­ur eða stjórn­mála­skoðanir fólks. Hins veg­ar væri alltaf skráð hverj­ir boðuðu til mót­mæla, hversu marg­ir mættu til þeirra og sak­næm at­vik ef ein­hver væru.

Eins og menn muna fjaraði undan mótmælunum 2009 eftir að Samfylking og VG mynduðu ríkisstjórn enda áttu þau að hluta flokkspólitískar rætur. Ég var dómsmálaráðherra á meðan lögreglan stóð í mestum stórræðum vegna mótmæla og bar lof á störf hennar eins og sjá má hér á síðunni.

Eftir að ég frétti að Geir Jón hefði tekið saman þetta yfirlit um mótmælin spurði ég þáverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu hvort ég fengi að lesa skýrsluna. Svarið var afdráttarlaust, það fengi ég ekki og enginn utan lögreglunnar sjálfrar, þetta væri vinnuplagg hennar og yrði farið með það eins og önnur trúnaðarskjöl.

Að sjálfsögðu virti ég þessa afstöðu en það gerði Eva Hauksdóttir ekki. Hún steig meðal annars nornadans á flötinni fyrir framan Stjórnarráðshúsið í mótmælaskyni veturinn 2008/2009 og fór í fylgd Geirs Jóns á fund Davíðs Oddssonar í Seðlabankahúsinu. Fyrir tilstuðlan opinberrar nefndar um upplýsingamál knúði Eva fram birtingu skýrslunnar, skyldu nöfn einstaklinga yfirstrikuð í hinni opinberu útgáfu en það fór í handaskolum.

Undrun vekur eftir að skýrslan er birt kveinki nafngreindir mótmælendur sér undan því að þeir þekkist. Sumir aðgerðasinna voru að vísu með hulin andlit en almennt virtist fólk ekki skammast sín neitt fyrir þátttöku í mótmælunum. Óljóst er hvernig skýra á viðkvæmni núna fyrir því að nöfn þeirra sem þekkjast séu skráð eða haldið sé til haga ljósmyndum og öðrum gögnum um mótmælin.

Frásögn Geirs Jóns er heimild sem að sjálfsögðu ber að varðveita og hið sama gildir um ljósmyndir og myndbandsupptökur. Úr því að áform lögreglustjóra um að hafa þetta aðeins sem innanhúss-skjal röskuðust er skynsamlegast að birta skjalið eins og Geir Jón skilaði því án allra yfirstrikana.