16.11.2014 21:20

Sunnudagur 16. 11. 14

Toledo er aðeins í um 30 mínútna fjarlægð frá Madrid sé farið með hraðlest. Greinilegt var að margir fóru í lestarferð þennan sunnudaginn til hinnar sögufrægu borgar. Hún var höfuðborg Spánar fyrr á öldum og geymir margar minningar úr spænskri sögu og af átökum kristinna manna og mára. Þá er þar einnig unnt að skoða pyntingartól og klefa rannsóknarréttarins.

Í borginni hefur verið endurgert hús með fallegum garði og er það látið vera sem heimili Grikkjans, málarans fræga El Greco. Þar má sjá nokkur af málverkum hans en einnig annars staðar í Toledo og ekki síst í hinni glæsilegu dómkirkju. Hún er  meðal djásna kristinnar byggingarlistar. Þar er eitt frægasta málverk eftir El Greco sem sýnir þegar Kristur er klæddur úr rauða kirtlinum á Golgata. Er mikil helgi í návist málverksins þótt hópar ferðamanna sveifli þar símum og myndavélum. Andrúmsloftið var rafmagnað í orðsins besta skilningi.

Það kostar 8 evrur að fara inn í dómkirkjuna en í verðinu fylgir tæki til hljóðleiðsagnar. Ferðamenn greiða frekar slíkt gjald með glöðu geði en einhvern skatt við komuna til Spánar sem sagt er að renni í sjóð og hann verði notaður til að vernda dómkirkjuna í Toledo. Hver veit það?

Við kirkju heilags Tómasar (Santo Tomé) er grafhýsi greifans af Orgaz sem andaðist 1323. Helgisögn varð til vegna dauða hans og þar segir að þegar hann hafi verið lagður til hinstu hvílu hafi sá óvænti atburður gerst að heilagur Ágústínus og heilagur Stefán hafi stigið af himnum ofan, tekið líkama greifans og lagt í gröfina. Þeir sem voru við athöfnina heyrðu rödd segja: „Þannig er þeim launað sem þjóna Guði og dýrlingum hans.“

El Greco var í mars árið 1586 fenginn til að mála mynd sem sýnir þennan atburð og lauk hann verkinu á níu mánuðum. á jólum. Nú er unnt að skoða þetta listaverk þar sem það hangir yfir gröf greifans og kostar 2,50 evrur að ganga inn í grafhýsið og líta myndina augum.