23.11.2014 21:15

Sunnudagur 23. 11. 14

Í hinum ágæta sjónvarpsþætti Orðbragði var í kvöld fjallað um þá staðreynd að ýmis starfsheiti eru karlkyns og hvort eigi að una því. Deila um þetta er ekki bundin við íslensku. Hún náði nýjum hæðum í Frakklandi fyrir skömmu þegar þingmaður var sektaður fyrir að fara ekki að þingsköpum þegar hann ávarpi konu á forsetastóli.

Frá 1998 gilda þau þingsköp í Frakklandi að það beri að féminiser eða kvengera öll ávörp í þingsalnum segja Madame la députée (frú þingkona) eða Madame la présidente (frú forseti) hið sama gildir um nefndarformenn eða fundarstjóra. Reglan nær hins vegar ekki til þess þegar ráðherra er ávarpaður. Þingmaður má því segja Madame le ministre þegar hann ávarpar ráðherra þótt hann sé kona.

Umræður um þetta verða ekki einfaldari í Frakklandi við það að Académie française, franska akademían, æðsti dómstóll franskrar tungu, er andvíg því að embætti séu kvengerð. Á vefsíðu hennar má sjá að akademían telur miður að heiti æ fleiri embætta hafi verið kvengerð hin síðari ár. Akademían leggur áherslu á að um sé að ræða embætti en ekki einstaklinga og embættið beri kyn án tillits til þess hver gegnir því og þess vegna sé eðlilegt að halda sig við eitt kyn, karlkyn sem sé í þessu tilliti hlutlaust.

Hér á landi vottar fyrir tilhneigingu til að kvengera stöðu- eða embættisheiti, einkum þegar orðið „stjóri“ á í hlut sbr. framkvæmdastýra eða jafnréttisstýra. Karlkyn starfsheita er hins vegar ráðandi: forseti, ráðherra, dómari, læknir, prestur, lögfræðingur, kennari og rithöfundur svo að nokkur dæmi séu nefnd.

Á alþingi ávarpa menn konu á forsetastóli almennt „frú forseti“, Ólafur Þ. Þórðarson heitinn hélt þó fast við ávarpið „herra forseti“ þótt kona sæti á forsetastóli. Nú er algengt að heyra fliss í þingmönnum noti einhver þetta ávarp þegar kona stjórnar fundi.