15.11.2014 21:15

Laugardagur 15. 11. 14

Það hefur verið ánægjulegt að kynnast mannlífinu í Madrid á löngum gönguferðum um borgina í dag. Mikill fjöldi fólks alls staðar á ferð.

Hér má sjá viðtal mitt við Svanhildi Bogadóttur borgarskjalavörð sem birtist á ÍNN miðvikudaginn 12. nóvember.

Ég setti smá-athugasemd inn á FB-síðu mína um greiðan aðgang Helgu Völu Helgadóttur lögfræðings að fréttatímum ríkisútvarpsins og má sjá hana hér auk þess fjölda ummæla sem fallið hafa vegna hennar. Sum ummælin hljóta að vekja undrun vegna þess ofstækis sem í þeim felst. Ég leyfi þeim að standa til að lesendur FB-síðu minnar sjái hvert menn teygja sig til að mótmæla skoðun sem þeir eru ósammála.

DV gerði frétt úr þessar FB-færslu og þar hafa áhangendur vefsíðu blaðsins náð sér á strik með ummælum sem eru á þann veg vegna orðalags og hugarfars að þau hljóta að ganga fram af öllu venjulegu fólki þótt þau séu innan ritstjórnarramma DV. Ástæða er til að velta fyrir sér hvað þeim gengur til sem ausa yfir annað fólk skít og skömm á opinberum vettvangi þótt þeir séu annarrar skoðunar en viðkomandi. Þarna fljúga ekki aðeins fúkyrði heldur hreinn uppspuni og lygar. Mikil skömm er að því fyrir DV að breytast í holræsi af þessari gerð.