20.11.2014 18:00

Fimmtudagur 20. 11. 12

Átti leið í Kringluna í dag og leit þar inn í bókabúð og blaðaði í jólabókunum. Rakst meðal annars á bók Reynis Traustasonar, fyrrv. ritstjóra DV, sem heitir Afhjúpun. Skoðaði nafnaskrána og fletti upp á nokkrum nöfnum. Mín er getið á þremur stöðum.

Reynir lætur eins og ég hafi verið settur til höfuðs Jónasi Kristjánssyni þegar hann var ritstjóri Vísis. Þetta stenst engan veginn. Ég starfaði í nokkra mánuði á Vísi sumarið 1974 við ritun erlendra frétta. Minnist ég ekki annars en góðs samstarfs við Jónas sem var afskiptalítill nema á fundum með blaðamönnum. Menn vissu hvert verkefni þeirra var og skiluðu því innan settra tímamarka eins og blaðamönnum ber að gera.

Þá segir Reynir að ég hafi tapað meiðyrðamáli sem Jón Ásgeir Jóhannesson í Baugi höfðaði gegn mér vegna prentvillu í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi. Villu sem ég leiðrétti. Hæstiréttur sneri við dómi héraðsdóms og dæmdi mig ekki fyrir meiðyrði.

Í þriðja lagi lætur Reynir orð falla vegna ummæla minna um að Jón Bjarki Magnússon, blaðamaður á DV, hefði komið fram undir merkjum samtakanna No Borders sem vilja að hælisleitendur geti farið sínu fram og í raun tekið lög og reglur í eigin hendur. Reynir segir hins vegar ekki frá áformum sínum um að fara í meiðyrðamál við mig vegna þessa en lögfræðingur hans sendi mér bréf sem mátti túlka sem undanfara stefnu. Hún barst hins vegar aldrei.

Þessi þrjú litlu dæmi afhjúpa fyrir mér að varla er mikill fengur í þessari bók vilji menn leita að trúverðugri samtímaheimild um menn og málefni.