12.11.2014 20:10

Miðvikudagur 12. 11. 14

Í dag ræddi ég við Svanhildi Bogadóttur borgarskjalavörð í þætti mínum á ÍNN og má sjá hann klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Hér má sjá þátt minn frá 5. nóvember þar sem ég ræddi við höfunda Tebókarinnar.

Í dómi í lekamáli Gísla Freys Valdórssonar sem birt var í dag segir:

„Við ákvörðun refsingar verður haft í huga að ákærði játaði ekki brot sitt fyrr en komið var að aðalmeðferð og eftir að komið höfðu fram ný gögn í málinu. Í minnisblaðinu, sem ákærði kom á framfæri við fjölmiðla, var að finna viðkvæmar persónuupplýsingar eins og í ákærunni greinir. Hins vegar er ekki fallist á að sýnt hafi verið fram á að ákærði hafi komið minnisblaðinu á framfæri í því skyni að afla sér eða öðrum óréttmæts ávinnings, hvorki fjárhagslegs né annars. Þá hefur ákærði hreint sakavottorð. Samkvæmt þessu verður refsing ákærða ákveðin 8 mánaða fangelsi sem bundin skal skilorði eins og í dómsorði greinir.“

Gísli Freyr ákvað að áfrýja ekki dóminum.

Þar með er þessum áfanga lekamálsins lokið, Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sagði við fréttastofu ríkisútvarpsins að hún ætlaði að klára þetta kjörtímabil í pólitík. Það gætu alltaf orðið breytingar í ríkisstjórninni sem yrðu til þess að hún tæki að sér önnur verkefni.  

Umboðsmaður alþingis tók samskipti innanríkisráðherra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til athugunar og á eftir að skila áliti sínu.

Hanna Birna reiknaði ekki með að álit umboðsmanns breytti hennar stöðu. „Ég mun fyrst og fremst læra af því og vonandi kemur hann með tillögur til úrbóta,“ sagði hún við fréttastofu ríkisútvarpsins.

Leki á fréttum úr hinu opinbera kerfi er fastur liður í opnum, lýðræðislegum samfélögum. Að telja þennan leka vegna Tonys Omos alvarlegri en margt annað sem hefur lekið úr ráðuneytum eða frá öðrum opinberum aðilum er óhjákvæmilegt að rökstyðja betur en gert hefur ef þetta mál á ekki að verða fordæmi fyrir ákæruvaldið til að stofna til rannsóknar og taka afstöðu til hvort kæra beri í fleiri tilvikum þar sem lekið er upplýsingum sem skulu fara leynt.

Nú liggur fyrir saksóknara að taka afstöðu til kæru vegna leka úr mennta- og menningarmálaráðuneytinu í tengslum við Hraðbraut þegar Katrín Jakobsdóttir var ráðherra. Þá hefur oftar en einu sinni verið vakið máls á því hér að rannsaka beri hver lak upplýsingum um vopnaðbúnað í gámi á lokuðu öryggissvæði á Keflavíkurflugvelli.