22.11.2014 19:00

Laugardagur 22. 11. 14

Miðað við atgang Sunnu Valgerðardóttur fréttamanns gagnvart Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, í hádegisfréttum ríkisútvarpsins í dag lítur fréttastofan á Sigríði Björk sem aðila að lekamálinu. Nú snýst það um símtöl milli Sigríðar Bjarkar og Gísla Freys Valdórssonar, þáv. aðstoðarmanns innanríkisráðherra, fyrir réttu ári.

Sporgöngumenn fréttastofunnar fara af stað, þeirra á meðal Ólafur Arnarson álitsgjafi sem skorast ekki undan að ala á tortryggni í garð Sigríðar Bjarkar meðal annars með fullyrðingu um að ég hafi skipað hana lögreglustjóra á Suðurnesjum „án auglýsingar“. Þessi fullyrðing er röng.

Embættið á Suðurnesjum var auglýst og sóttu fjórir um það í nóvember 2008: Alda Hrönn Jóhannsdóttir, löglærður fulltrúi lögreglustjórans á Suðurnesjum, Ásgeir Eiríksson, fulltrúi og staðgengill sýslumannsins í Keflavík, Halldór Frímannsson, sérfræðingur og lögmaður á fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar, og Sigríður Björk Guðjónsdóttir aðstoðarríkislögreglustjóri.

Í sömu andrá og Ólafur Arnarson fer rangt með ofangreinda staðreynd segir hann: „Vonandi varpar athugun á þætti núverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu ljósi á upphaf lekamálsins.“ Hvað er álitsgjafinn að fara með þessum orðum? Við hvaða tímasetningar miðar Ólafur?

Þeim þætti lekamálsins sem snertir Sigríði Björk er lekið úr stjórnkerfinu. Að það teljist stjórnsýslu-afglöp lögreglustjóra að bregðast við erindi úr ráðuneyti eða honum beri að athuga með fyrirspurn til ráðuneytis umboð aðstoðarmanns felur í sér óvenjulega kröfu.

Í stjórnarráðslögunum frá 2011 segir að hver ráðherra geti haft tvo aðstoðarmenn og ríkisstjórnin þrjá að auki. Aðstoðarmaður ráðherra heyrir beint undir ráðherra. Meginhlutverk hans er að vinna að stefnumótun á málefnasviði ráðuneytis undir yfirstjórn ráðherra og í samvinnu við ráðuneytisstjóra. Að afla gagna um mál sem eru á borði ráðherra hverju sinni eru meðal mikilvægustu verkefna hans.

Persónuvernd birti á vefsíðu sinni bréf til lögregluembættisins á Suðurnesjum frá 19. nóvember 2014 vegna frétta „um samskipti lögreglunnar á Suðurnesjum og annars af aðstoðarmönnum innanríkisráðherra hinn 20. nóvember 2013“ Vitnað er í lagaskilyrði í bréfinu og síðan segir að ákveðið hafi verið á stjórnarfundi persónuverndar að lögreglustjóraembættið skýri frá hvaða upplýsingum var miðlað til innanríkisráðuneytisins með sendingu umræddrar greinargerðar. […] Jafnframt er þess óskað að afrit af umræddri greinargerð verði sent Persónuvernd.“

Næsta skref er að greinargerðin verði birt opinberlega svo að allur almenningur geti áttað sig á efnisatriðum lögreglurannsóknar á hendur Tony Omos. Til slíkra rannsókna er ekki gripið nema að gefnu tilefni.