3.11.2014 19:15

Mánudagur 03. 11. 14

Í dag var efnt til kynningar á vegum Hins íslenska fornritafélags á Háskólatorgi vegna útgáfu á Eddukvæðum I-II. Jónas Kristjánsson og Vésteinn Ólason önnuðust útgáfuna með inngangi og skýringum en Þórður Ingi Guðjónsson er ritstjóri. Vésteinn flutti erindi og Svanhildur Óskarsdóttir las um Guðrúnu Gjúkadóttur úr Eddukvæðum.

Eins og jafnan þegar miðaldarmenning er kynnt almenningi í Háskóla Íslands var fjölmenni við athöfnina. Sætir vissulega tíðindum að útgáfa Eddukvæða með ítarlegum skýringum skuli koma út á íslensku. Til þessa hafa fræðimenn helst leitað í þýskar útgáfur kvæðanna til að fá fræðilegar skýringar.

Jónas heitinn Kristjánsson ritaði skýringarnar í nýju útgáfuna og sagði Vésteinn ómetanlegt að jafn orðhagur maður og hann hefði komið að því verki. Vésteinn ritar tæplega 300 blaðsíðna formála að útgáfunni og gerir þar grein fyrir alþjóðlegum og innlendum rannsóknum á Eddukvæðum og niðurstöðum þeirra.

Í kynningu Fornritafélagsins segir:

„Eddukvæðin hafa lengi verið talin meðal gersema heimsbókmenntanna. Í þeim birtast skáldlegar sýnir, stórbrotin tilfinningaátök, djúp speki og hárbeitt skop í hnitmiðuðu en þó frjálslegu formi. Kvæðin eiga sér eldfornar rætur í trúarbrögðum norrænna þjóða og söngum og kvæðum af hetjum allt frá öld þjóðflutninga. Varðveitta mynd hafa þau fengið á víkingaöld eða síðar.“

Dr. Jóhannes Nordal, fyrrv. seðlabankastjóri, er forseti Hins íslenska fornritafélags.