1.11.2014 22:00

Laugardagur 01. 11. 14

Á mbl.is í dag segir:

„Lög­regl­an á Þórs­höfn greip til skot­vopna til að tryggja aðstæður þegar maður gekk um bæ­inn vopnaður hagla­byssu í morg­unn. Skot­vopn­in voru ekki í lög­reglu­bíln­um, enda er bíll­inn ekki bú­inn þar til gerðum hirsl­um, held­ur þurfti að sækja skot­vopn á lög­reglu­stöðina.

Maður­inn hef­ur að sögn lög­regl­unn­ar á Húsa­vík áður komið við sögu lög­reglu.“

Sérsveitarmenn eru á Akureyri og lögðu þeir af stað klukkan 07.29 til Þórshafnar, 260 km leið, maðurinn var handtekinn kl. 11.00. Lögregla frá Húsavík hélt einnig vopnuð til Þórshafnar.

Atvik eins og þetta fellur að umræðunum undanfarið um vopnabúnað lögreglunnar, aðgang að honum og beitingu hans. Vopnageymsla er ekki í bifreiðum lögreglu á Húsavík. Við þetta útkall kynni að hafa orðið að aka úr Mývatnssveit til Húsavíkur eftir vopnum og þaðan til Þórshafnar.

Menn geta talað sig hása um að lögregla verði að sætta sig við hindranir í vopnabúnaði. Að sjálfsögðu eiga að gilda skýrar reglur um hann. Menn tala sig hins vegar ekki frá raunveruleikanum sem blasir við lögreglumönnunum eða þeim sem leita öryggis hjá þeim. Reglurnar um vopnabúnað lögreglu verða að taka mið af raunveruleikanum en ekki tali þeirra sem vilja ekki horfast í augu við hann.