21.11.2014 19:15

Föstudagur 21. 11. 14

Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér embætti innanríkisráðherra í dag en situr áfram sem þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hún sendi frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að ástæðan fyrir afsögninni væri persónuleg en ekki pólitísk. Hún orðar þetta á þennan veg:

Til að skapa frið um störf ráðuneytisins og til að hlífa þeim sem þetta mál [lekamálið svonefnda] hefur bitnað illa á hef ég nú tilkynnt formanni Sjálfstæðisflokksins að ég óski eftir að hætta sem ráðherra og sækist ekki lengur eftir að gegna embætti innanríkisráðherra. Hann sýndi þeirri beiðni minni skilning, enda miklu frekar um persónulega en pólitíska ákvörðun að ræða.“

Í yfirlýsingunni kemur fram að málið hefur lagst þungt á fjölskyldu Hönnu Birnu og nú ætlar hún að taka sér frí frá þingstörfum fram að áramótum og koma þá til starfa á hinum pólitíska vettvangi á nýjan leik.

Við aðstæður sem þessar skiptir máli hvernig aðrir þátttakendur á hinum pólitíska vettvangi taka á málum. Þegar Albert Guðmundsson hvarf úr ráðherraembætti og Þorsteinn Pálsson var formaður Sjálfstæðisflokksins hélt Þorsteinn þannig á málinu í sjónvarpsviðtali að Albert stofnaði stjórnmálaflokk til höfuðs Þorsteini og Sjálfstæðisflokknum.

Margt bendir til að innan Samfylkingarinnar haldi Árni Páll Árnason formaður þannig á málinu að hann hafi ekki af því neinn sóma. Píratar eru frekar bjálfalegir í viðbrögðum sínum Birgitta Jónsdóttir segir eitt og Helgi Hrafn Gunnarsson annað en það hlakkar þó í þeim báðum. Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, sýndi af sér drengskap í orðum sínum.

Þeir sem mest hafa lagt sig í framkróka um að sverta Hönnu Birnu eru blaðamennirnir Jón Bjarki Magnússon og Jóhann Páll Jóhannsson á DV. Rætt er við Jóhann Pál á visir.is og hann segir:

„Já, auðvitað hlýtur maður að fagna þessu. Ráðherrann hefur barist um á hæl og hnakka í heilt ár, grafið undan trausti og trúverðugleika hverrar stofnunarinnar á fætur annarri, kastað skít og drullu yfir landlaust fólk, embættismenn og blaðamenn, allt með dyggum stuðningi tveggja stjórnmálaflokka sem gáfu valdníðslu hennar heilbrigðisvottorð, ýmist með beinum eða óbeinum hætti. Þegar litið er yfir árið vona ég að einhverjir skammist sín.“

Hugarfarið sem býr að baki þessum gífuryrðum minna á orð þessa sama blaðamanns að hann fyrirliti sjálfstæðismenn. Jóhann Páll bætir ekki hlut sinn með þessum viðbrögðum. Þau eru honum ekki til neins sóma.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur fullan sóma af sínum viðbrögðum í dag.